Virkjun Hvalár í Ófeigsfirði

Þriðjudaginn 12. febrúar 2002, kl. 15:19:15 (4449)

2002-02-12 15:19:15# 127. lþ. 75.6 fundur 54. mál: #A virkjun Hvalár í Ófeigsfirði# þál., Flm. KVM (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 127. lþ.

[15:19]

Flm. (Karl V. Matthíasson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um undirbúningsvinnu fyrir virkjun Hvalár í Ófeigsfirði í Árneshreppi á Ströndum:

Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela iðnaðarráðherra að láta gera nauðsynlegar forathuganir til þess að hægt sé að meta hagkvæmni mögulegrar virkjunar Hvalár í Ófeigsfirði. Stefnt verði að því að nauðsynlegum rannsóknum í þágu verkefnisins verði lokið fyrir haustið 2003.``

Meðflutningsmenn mínir að þessari þáltill. eru hv. þm. Kristján L. Möller, Jóhann Ársælsson, Gísli S. Einarsson og Einar Már Sigurðarson.

Í greinargerð segir m.a.:

Ávallt er þörf fyrir orku í samfélaginu og nauðsynlegt að hafa þekkingu á því hvar hægt sé að fá hana með góðu móti. Orkuöflun í sem flestum hlutum landsins tryggir aukinheldur öryggi í orkuöflun landsmanna. Fjöldi ónýttra möguleika bíður okkar til notkunar og rannsókna. Einn þeirra möguleika sem við eigum til orkuöflunar er Hvalá í Ófeigsfirði á Ströndum.

Ekki er óeðlilegt að afmarka fyrst virkjunarsvæðið og kanna hvort líkur séu á því að virkjun þarna sé hagkvæm því ef svo reynist ekki liggur ekki á að gera miklar umhverfisrannsóknir vegna virkjunarframkvæmda. Það liggur í hlutarins eðli, herra forseti. Ekki er óvarlegt að áætla að þær rannsóknir sem hér um ræðir gætu kostað um 20 millj. kr., en eins og segir hér á eftir mundu þær fela í sér samanburðarrennslismælingar við láglendi, myndkort, gróðurkort og jarðfræðikort og yfirlitsathuganir á vötnum, stöðuvötnum og straumvötnum á Ófeigsfjarðarheiðinni.

Nú þegar hafa farið fram forathuganir á virkjunarmöguleikum á þessum stöðum og taka þær mið af því að miðlunarlón verði í Vatnalautavötnum í um 340--350 m hæð yfir sjávarmáli. Athuganir þessar byggjast á rennslismælingum í Hvalá niður við sjó, en slíkt gefur aðeins hugmynd um meðalrennsli af öllu vatnasvæði árinnar. Því er nauðsynlegt að fram fari frekari rannsóknir á vatnsmagni og afrennsli svæðisins.

Engar náttúrufarsrannsóknir hafa farið fram, hvorki varðandi tæknilega útfærslu né umhverfismál. Að vísu hefur Orkubú Vestfjarða verið með smáathuganir í sambandi við línur, styrk og annað. Slíkar rannsóknir eru nú um stundir unnar á grunni myndkorta í tölvu. Því er nauðsynlegt að láta gera myndkort af öllu virkjunarsvæðinu sem nær yfir um 500 km2. Þegar þau gögn liggja fyrir er hægt að hefjast handa um gerð jarðfræðikorta og síðan gróðurkorta og vistgerðarkorta ef líkur eru taldar á að virkjun Hvalár geti orðið hagkvæm.

Öllum má ljóst vera hversu jákvæð áhrif það hefði á atvinnu- og mannlíf á Vestfjörðum ef virkjun Hvalár yrði að raunveruleika. Það yrði Vestfirðingum mikil fengur ef koma mætti upp orkufrekri og arðvænlegri atvinnustarfsemi sem samrýmdist landsháttum og náttúru Vestfjarða. Í þessu sambandi mætti jafnvel hugsa sér vetnisframleiðslu sem menn beina sjónum sínum að í æ ríkari mæli. Þá er fiskeldi einnig vaxandi atvinnugrein og ekki er vafi á því að mikið fiskeldi þarfnast mikillar raforku, einkum ef framtíðin krefst þess að það verði eingöngu stundað í kerum á landi en ekki sjókvíum. Verði sjó dælt í miklu magni í fiskeldisker í landi þá mun náttúrlega verða mikil þörf fyrir mun meira rafmagn.

Þetta í sambandi við raforkuna gæti haft sín áhrif á ákveðin öryggismál. Við þekkjum nú söguna, t.d. hversu lengi var rafmagnslaust í óveðrinu um daginn. Góðar og betri línur hefðu tryggt að menn hefðu ekki orðið rafmagnslausir svo lengi sem raun varð á.

Það er í raun merkilegt með Hvalárvirkjun, ef svo má að orði komast, eða rannsóknir á því hvort hægt er að koma upp virkjun við Hvalá og jafnvel á Glámuhálendinu, eru svolítið skammt á veg komnar. Hvað vitum við um möguleikana þar? Menn vita náttúrlega ekki hversu mikil orka kæmi frá þessum virkjunum tveimur, Glámu og Hvalárvirkjun, en menn giska á --- við leggjum nú fram þessa þáltill. af því að við vitum það ekki --- að hér gæti verið um 150 megavatta virkjun að ræða. Það er mikil orka og samsvarar eins og allri Blönduvirkjun. Nú þegar liggja fyrir upplýsingar um eina 15 virkjunarkosti. Í Skagafirði hefur t.d. verið rannsakað, einnig hafa Skjálfandafljót og Jökulsárnar verið rannsökuð eins og við þekkjum, Hverfisfljót og Skaftá. Þarna eru alls staðar virkjunarmöguleikar sem hafa verið kannaðir. En á Vestfjörðum hefur það ekki verið gert svona ítarlega.

Svo ég víki að því sem fyrr var rætt á þessum þingfundi, herra forseti, þá tel ég að þetta gæti skipt miklu máli sem byggðamál. Ég sé fyrir mér að Náttúrustofa Vestfjarða mundi gegna miklu hlutverki líka í rannsóknum þarna. Það mundi skipta gífurlega miklu máli ef aukin verkefni kæmu þangað, bæði til að afla vitneskju og fróðleiks og líka til þess að hjálpa til við að ákveða hvort hægt væri að reisa þær virkjanir sem ég nefndi hér áðan, einkum og sér í lagi Hvalá í Ófeigsfirði. Reyndar hefur verið talað um að stöðvarhús gæti jafnvel verið í Reykjarfirði á Ströndum.

Herra forseti. Ég tel mjög brýnt að farið verði að vinna að þessu máli. Það væri mjög gott ef við hefðum þessar niðurstöður allar fyrir haustið 2003, þ.e. eftir rúmt eitt ár, og að við reyndum að skapa þær aðstæður að Glámuvirkjun og Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði fengju sem fyrst sambærilega stöðu á við marga aðra virkjunarmöguleika. Getur verið t.d. að menn séu að beina sjónum sínum að því að koma upp virkjunum sem eru ekki eins hagkvæmar og Gláma og Hvalá? Gæti verið að mun minni umhverfisröskun yrði samfara þessum virkjunum en einhverra annarra sem menn beina sjónum sínum að? Þetta vitum við ekki og auðvitað þarf að rannsaka þessa hluti og komast að niðurstöðu. Því fyrr sem það er gert, herra forseti, því betra.