Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Þriðjudaginn 12. febrúar 2002, kl. 15:56:59 (4458)

2002-02-12 15:56:59# 127. lþ. 75.7 fundur 112. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., Flm. SvanJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 127. lþ.

[15:56]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég ræddi hér fyrr í dag um þáltill. um bætta samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs. Það má kannski segja að frv. sem ég mæli hér fyrir lúti að því sama, þ.e. að við lögum löggjöf okkar þannig að íslenskt atvinnulíf verði samkeppnishæfara um fjármagn og þar með betur í stakk búið til að takast á við verkefni sín, greiða hærri laun og þá væntanlega hærri skatta til samfélagsins.

Þetta frv. er um breytingu á lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri. Og efni þeirra breytinga sem við viljum láta gera á þessu frv., flutningsmenn frv. sem eru auk mín eru hv. þm. Jóhann Ársælsson, Lúðvík Bergvinsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir, er að um fiskiðnað gildi ein og sama regla og þá sama regla og gildir um iðnað almennt, þ.e. að erlendum aðilum sé heimilt að fjárfesta í þessum greinum.

Í dag, herra forseti, er erlendum aðilum heimilt að fjárfesta í sumum geymsluaðferðum fisks en ekki öðrum. Þeim er t.d. heimilt að fjárfesta í reykingu á fiski eða niðursuðu, niðurlagningu, en þeim er ekki heimilt að fjárfesta í söltun eða bræðslu og ekki í herslu. Það kann vel að vera að á sínum tíma þegar fiskiðnaði var skipt upp með þessum hætti, að hluti af honum var flokkaður sem iðnaður en annað skilið eftir undir sömu reglu og útgerðin, hafi menn haft til þess frambærileg rök. Þau rök þekki ég hins vegar ekki og þau hafa ekki komið fram þegar þetta frv. eða sambærileg frv. hafa verið rædd hér áður, utan það að menn óttast að ef þetta frv. verði að lögum, þannig að ein og sama regla gildi um allan fiskiðnað, þá gæti það orðið til þess að menn færu að skipta sundur veiðum og vinnslu. Það verður nú að segja eins og er, herra forseti, að jafnvel í hópi þingmanna eru einstaklingar sem telja það hina mestu goðgá. Menn vilja sjá veiðar og vinnslu í einu og sama fyrirtækinu og allt sem gæti ruggað þeim báti er af hinu illa. Þetta eru þau rök sem helst hafa komið fram gegn því að ein og sama regla gilti um fiskiðnað og þá sama regla og um annan iðnað.

[16:00]

Þegar við erum að tala um fjárfestingar erlendra aðila í íslensku atvinnulífi er ágætt að skoða hvernig veruleikinn er. Menn virðast stundum halda að það sé undantekning að útlendingar megi fjárfesta í íslensku atvinnulífi. Svo er þó ekki. Það er meginreglan. Gallinn er hins vegar sá, að mati margra, að útlendingar hafa ekki haft mikinn áhuga á að fjárfesta í íslensku atvinnulífi. Við horfum upp á það, þegar við skoðum hagtölur, að íslenskir aðilar fjárfesta mun meira í atvinnulífi erlendis en nokkurn tímann erlendir aðilar í atvinnulífi hér. Erlendar fjárfestingar, ef svo má kalla það, áhrif erlendra peninga, sjást fyrst og fremst í skuldabókum íslenskra fyrirtækja en ekki í hlutafé þeirra.

Ríkisstjórnin reyndi að bregðast við þessu með sínum hætti nú fyrir jólin með því að lækka tekjuskatta fyrirtækjanna niður í 18%. Ekki veit ég hvort það dugir til að laða erlenda fjárfesta til að setja peningana sína í íslensk fyrirtæki öðruvísi en sem lánsfé. Alla vega er þessi viðleitni í gangi. Á sama tíma eru menn með þá hortitti í löggjöf um erlendar fjárfestingar sem við viljum að verði leiðréttur, þ.e. að ein og sama regla gildi um allan fiskiðnað.

Eins og lögin eru í dag mætti auðveldlega kalla þetta tæknilega viðskiptahindrun. Það er ljóst að þegar erlendir aðilar skoða hvaða möguleika þeir eigi á að taka hér þátt í fiskvinnslu, setja pening í hana, þá hrökkva þeir frá þegar þeim verður ljóst hversu flókið það er. En eins og ég sagði áðan er það regla frekar en hitt að erlendir aðilar megi fjárfesta í íslensku atvinnulífi. Mest hefur sú fjárfesting verið, eins og við þekkjum, í stóriðju. Þar er stóra erlenda fjárfestingin. Erlendir aðilar mega fjárfesta í sjávarútvegi en þá bara óbeint. Ef þeir hafa áhuga á slíku verður að búa til ýmiss konar milliliði og dótturfélög. Með því að búa til nógu mikið af slíku og hafa keðjurnar nógu flæktar geta erlendir aðilar með óbeinum hætti eignast 49,9% í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum, ef marka má orð hæstv. sjútvrh. Það telur hann að sé fullnægjandi.

Við segjum aftur á móti, herra forseti: Þegar um það er að ræða að löggjöfin er svo flókin að menn þurfa að hafa sérstaklega fyrir því, umfram það að gerast þátttakendur í íslensku atvinnulífi með kaupum á hlutabréfum, að stofna fyrirtæki eða fara krókaleiðir, er það nú ekki beinlínis vænlegt, þ.e. vonist menn eftir hinu erlenda fjármagni.

Eins og ég sagði, herra forseti, gerir þetta frv. ráð fyrir því að um fiskiðnað gildi almennt sömu reglur og um annan iðnað hvað varðar fjárfestingar erlendra aðila. Við gerum ekki ráð fyrir breytingum á gildandi lögum um útgerð. Við gerum ráð fyrir því að þar sé og verði fortakslaust bann. Við í Samfylkingunni gerum þann fyrirvara hvað varðar fjárfestingar í útgerð að áður en að af henni getur orðið þurfi að ganga tryggilega frá eignarhaldi þjóðarinnar á auðlindinni. Við teljum að þar sé ekki nægjanlega að gert í dag. En þegar það hefur verið gert er kominn tími til að skoða hvort sjálfsagt er að erlendir aðilar fái að kaupa hlut í útgerð og þá beint en ekki óbeint eins og nú viðgengst.

Mig langar að upplýsa það, herra forseti, þó það liggi hér fyrir í þingskjali, en kannski er rétt að það sé líka sagt héðan úr ræðustól, að með hinni óbeinu fjárfestingu sem menn virðast hafa nokkurt dálæti á og telja til fyrirmyndar í sjávarútvegi --- sjútvrh. nánast hrósar sér af því að hér sé með óbeinum hætti hægt að fjárfesta upp á 49,9% --- hefur enginn eftirlit. Ég hef reglulega sett fram fyrirspurnir til hæstv. viðskrh. um hvernig fjárfestingum erlendra aðila sé háttað í íslensku atvinnulífi. Ég hef beðið um sundurliðun á beinum og óbeinum fjárfestingum. Þar kemur fram að enginn veit neitt um þessar óbeinu fjárfestingar. Enginn heldur utan um þær og enginn veit í raun í hvaða mæli þær eru. Samkvæmt lögunum á viðkomandi aðili að tilkynna um fjárfestingar sínar. En hver veit hvort það er gert? Það er ekkert eftirlit með slíku og þar af leiðandi engar upplýsingar.

Eins og ég gat um áðan þá er það þannig samkvæmt gildandi lögum um fjárfestingar erlendra aðila að þeim er bara heimilt að eiga þennan óbeina hlut í íslenskri útgerð og hluta vinnslunnar. Þessi möguleiki til óbeinnar eignaraðildar var lögfestur fyrir nokkrum árum þegar ljóst var að erlend fyrirtæki áttu hér óbeint hlut í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Þá treystu menn sér ekki til þess að standa við það fortakslausa bann, sem var í þágildandi löggjöf, en löguðu löggjöfina að veruleika þess tíma. Það er ljóst að sá veruleiki er ekki endilega veruleiki dagsins í dag. Þess vegna tímabært að skoða málið, enda voru flestir á því máli fyrir u.þ.b. ári síðan, þegar erlend fjárfesting var rædd á Alþingi, að rétt og eðlilegt væri að endurskoða þessa löggjöf í ljósi þess að auðvitað breytast aðstæður. Menn þurfa að skoða hvort löggjöfin sem er í gildi hentar í raun þeim aðstæðum sem menn telja að þurfi að vera eða að ókjósanlegastar þykja.

Ljóst er að erlendir aðilar geta keypt fisk á innlendum fiskmörkuðum. Það er e.t.v. þverstæða að á sama tíma og erlendir aðilar mega ekki eiga hlut í nema tilteknum greinum vinnslu þá mega þeir kaupa fisk á innlendum fiskmörkuðum og flytja hann til útlanda. Þeir mættu líka fá verktaka í að verka hann fyrir sig hér heima ef um væri að ræða verkunaraðferð sem er á bannlista. En þeir mættu ekki setja peninga í þann rekstur. Það er bannað. Menn sjá að kannski er ekki alltaf auðvelt að útskýra af hverju þetta er svona.

Ég held að reynsla okkar sýni að breyting í þá veru að heimilt yrði að fjárfesta beint þýddi ekki að útflutningur hráefnis ykist heldur kannski alveg öfugt. Ýmis rök eru fyrir því að gera þessa breytingu á lögunum, auk þeirra sem ég hef þegar rakið. Það er óeðlilegt að mismuna fyrirtækjum í matvælaiðnaði eftir því í hvaða grein þau eru. Það er gert í dag. Erlendir aðilar geta fjárfest í matvælaiðnaði á Íslandi, öllum greinum nema örfáum tilteknum greinum fiskiðnaðar.

Mörg dæmi eru um fjárfestingar erlendra aðila í íslenskum atvinnurekstri þó þau séu ekki nógu mörg og kannski ekki nógu afgerandi. Menn eru hins vegar þeirrar skoðunar að slík eignaraðild hafi styrkt íslenskt atvinnulíf og geti gert það áfram. Ég fór yfir það áðan hversu mikill munur er á því hve lítil erlend fjárfesting kemur til Íslands og hve mikið hins vegar streymir út af íslensku áhættufé til fjárfestinga erlendis.

Það hefur lengi verið stefna stjórnvalda að fá erlenda aðila til að fjárfesta meira í íslensku atvinnulífi. En eins og áður segir hefur það helst gengið í stóriðju en lítið verið fjárfest í öðrum greinum. Við gætum svo sem velt því fyrir okkur hvar væri girnilegt fyrir erlenda aðila að fjárfesta. Ég veit ekki hvaða áhrif skattbreytingarnar hafa, en það er alveg ljóst að menn þurfa að gera býsna mikið til að upphefja áhrif gjaldmiðilsins, krónunnar, sem auðvitað hefur ákveðnar takmarkanir sakir þess hve lítill heimamarkaður hennar er.

Það er mat margra að eignatengsl Íslendinga og útlendinga í fiskvinnslufyrirtækjum gætu örvað markaðsstarf og leitt til nýsköpunar. Það er sömuleiðis mat margra að fiskiðnaðurinn ætti að geta sótt sér áhættufé í stað þess að nýta fyrst og fremst lánsfé frá útlöndum. Jafnframt færi samstarf við erlendra aðila með þátttöku þeirra í uppbyggingu fiskiðnaðar fram fyrir opnum tjöldum og samkvæmt því sem við gætum kallað eðlilegar leikreglur.

Það er viðurkennt að erlendir aðilar eiga hlut í fiskvinnslu á bannlista. Það gerist þá ekki þannig að þeir séu opinberir eignaraðilar heldur eiga þeir hugsanlega vélar, hafa lánað fyrir fjárfestingum, jafnvel fyrir hráefniskaupum og eru með þeim hætti beinir aðilar að viðkomandi vinnslu. Þeir hafa í raun það vald sem hæfir því fjármagni sem þeir eru búnir að setja þar inn, en hafa ekki gert það í gegnum hlutafé heldur með öðrum hætti.

Sumum kann að finnast þetta bara ágætt og þá þurfi ekki að gera meira. En ég spyr: Af hverju ekki að hafa löggjöfina þannig að hún sé lipur og einföld, að jafnræði sé á milli aðila og ef menn kjósa að efna til samstarfs við erlenda aðila um tilteknar vinnslugreinar þá sé það heimilt og menn geti gert það fyrir opnum tjöldum en þurfi ekki að fara þessar krókaleiðir?

Menn hafa bent á að ef útlendingar þekki Ísland fyrir eitthvað fyrir utan Björk og menninguna þá sé það líklega íslenskur sjávarútvegur og fiskiðnaður. Menn verða þá helst varir við hann. Þess vegna má ætla að þátttaka í fiskiðnaði gæti verið lykill að frekari fjárfestingum í öðrum greinum. Þá gætu orðið til hliðarfyrirtæki með nýjum umsvifum sem gætu skipt máli. Síðast en ekki síst, eins og ég gat um í upphafi máls míns, herra forseti, gæti lagabreyting eins og þessi styrkt samkeppnisstöðu Íslands.

Það er ekki um það að ræða að aðilar verði skyldaðir til þess að taka í sundur veiðar og vinnslu, hreint ekki, heldur er hægt að bjóða upp á þann valkost, að ef fyrirtækin vilja efna til samstarfs við erlenda aðila um fiskvinnslu sem er á bannlista núna sé það heimilt og menn búi þá til í kringum það sérstakt fyrirtæki. Í dag þurfa menn hvort eð er að gera það í ýmsum tilfellum þegar farið er út í óbeinu eignaraðildina með dótturfyrirtækjafyrirkomulaginu.

Ég ætla að fara yfir, herra forseti, hvaða greinar eru á bannlista núna. Það eru frysting, söltun, hersla, bræðsla og mjölvinnsla. Þær sem eru leyfilegar eru hins vegar reyking, súrsun, niðursuða, niðurlagning og síðan umpökkun afurða í neytendaumbúðir eða frekari vinnsla til að gera vöruna hæfari til dreifingar, þ.e. sá þáttur sem hingað til hefur verið talinn hvað mest virðisaukandi.

Eins og ég sagði áðan er ekki gott að átta sig á því hver rökin eru í dag og jafnvel hvað lá að baki upphaflega. Þó er ljóst, eins og ég sagði áðan, að einhverjir töldu það nægjanleg rök að þeir voru á móti aðskilnaði veiða og vinnslu og töldu að allt ætti þetta að vera súrrað og bundið saman.

Íslendingar hafa á undanförnum árum afnumið sérstakar hömlur fyrir erlenda fjárfesta hérlendis á flestum sviðum. Þá er eðlilegt að skoða þetta svið, ekki síst vegna þess að við erum að tala um tiltekið jafnræði milli aðila. Þar af leiðandi, herra forseti, gerum við okkur vonir um dropinn holi steininn og menn sjái að til lítils er að hafa löggjöf sem þessa ef hún kemur í veg fyrir að menn nái þeim markmiðum sem þeir vilja að öðru leyti ná í íslensku atvinnulífi.

Að lokinni þessari umræðu, herra forseti, legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.