Tækniháskóli Íslands

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 15:03:51 (4522)

2002-02-13 15:03:51# 127. lþ. 77.7 fundur 452. mál: #A Tækniháskóli Íslands# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., JB
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[15:03]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Það er fagnaðarefni að væntanlegt sé alveg á næstu dögum frv. til laga um Tækniháskóla Íslands, og þó fyrr hefði verið.

Hæstv. menntmrh. lýsti því yfir sem ég dreg ekki í efa að hann bæri hag og velgengni Tækniskólans mjög fyrir brjósti. Því vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað líður fjárhag skólans? Mig minnir að skólinn hafi skuldað í lok ársins 2000 90--100 millj. kr. og mér skilst að heldur hafi skuldirnar aukist fram á þennan dag. Áfram býr hann við þannig útreikninga að rekstrargrunnur hans er mjög ótryggur og umhverfi allt hið erfiðasta. Ef hæstv. ráðherra ann honum eins og hann gat um, hvenær er þess þá að vænta að Tækniskólinn fái eðlilega fjárhagslega og rekstrarlega umgjörð og úrbætur á því sviði?