Val á skipi til að sinna áætlunarsiglingum Herjólfs tímabundið

Miðvikudaginn 13. febrúar 2002, kl. 19:00:44 (4568)

2002-02-13 19:00:44# 127. lþ. 77.17 fundur 415. mál: #A val á skipi til að sinna áætlunarsiglingum Herjólfs tímabundið# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 127. lþ.

[19:00]

Fyrirspyrjandi (Ísólfur Gylfi Pálmason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir þessi svör. Það gleður mig er hann segir að hann ætli að mynda starfshóp um að skoða kosti þess að auka fjölbreytni í samgöngum milli lands og Eyja. Hann talaði líka um að hann hugsaði til framtíðar. Við megum ekki geyma því að það hlýtur að vera framtíð í að skoða alla þá möguleika sem hugsast getur í þessum efnum. Tíminn er dýrmætur. Það eru ekki allir sem gefa sér tíma til að sigla í þrjá klukkutíma milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja. Þá stóla menn á flugið sem getur verið stopult þegar veður eru válynd.

Ferðaþjónusta er vaxandi atvinnuvegur í Vestmannaeyjum. Þar er heilmikill vaxtarbroddur í ferðaþjónustunni og þess vegna skiptir mjög miklu máli fyrir ferðaþjónustuna, íbúa og atvinnulíf í Vestmannaeyjum að sem öruggastar samgöngur séu þarna á milli.

Við megum ekki geyma því að Herjólfur er í raun þjóðvegur milli lands og Eyja. Ef við hugsum til þeirra þjóðvega sem við höfum uppi á landi þá notum við líka heilmikið af peningum í viðhald þessara vega. Sums staðar lýsum við upp brautir og það kostar mikla peninga. Við eigum því ekki að horfa í að gera þessa tilraun. Auk þess gefst tækifæri til þess, þegar Herjólfur fer í slipp, að prófa sig áfram í þessum efnum. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi 1967, sem ungur maður í sveit í Landeyjunum, að fá að fara með svifnökkva sem gerðar voru tilraunir með þá. Það hefur orðið gríðarleg þróun í þeim efnum síðan. Mér finnst full ástæða til að kanna þessa möguleika, hvort mögulegt sé að nýta svifnökkva þarna á milli. Mér er sagt að ferðin tæki með því á að giska tíu mínútur á milli lands og Eyja.