Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 11:03:49 (4623)

2002-02-14 11:03:49# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[11:03]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar, á þskj. 795.

Frumvarp þetta er flutt til þess að afla lagaheimilda fyrir Kárahnjúkavirkjun og stækkun Kröfluvirkjunar vegna stóriðjuframkvæmda sem áformað er að ráðast í á næstu árum á Austurlandi. Frv. er lagt fram nú til að gera Landsvirkjun kleift að halda áfram nauðsynlegum undirbúningi þessara virkjanaframkvæmda.

Í frv. er annars vegar lagt til að Landsvirkjun verði veitt heimild til að reisa og reka Kárahnjúkavirkjun með allt að 750 megavatta afli og virkja til þess í tveimur áföngum vatnsföllin Jökulsá á Brú og Jökulsá í Fljótsdal. Hins vegar er lagt til að iðnrh. verði veitt heimild til að veita Landsvirkjun leyfi til að stækka Kröfluvirkjun í allt að 220 megavött.

Viðræður um byggingu álverksmiðju á Austurlandi hafa staðið yfir um nokkurt skeið. Þeir aðilar er hafa komið að því verkefni eru íslensk stjórnvöld, Landsvirkjun, Hydro Aluminium Metal Production, Reyðarál hf. og Hæfi hf. Er nú svo komið að aðilar stefna að því að taka 1. sept. nk. endanlega ákvörðun um hvort af framkvæmdum verði eða ekki.

Gert er ráð fyrir að álverksmiðjan verði byggð í tveimur áfögnum og er miðað við að fyrri áfangi hennar verði kominn í rekstur fyrir lok ársins 2006. Síðari áfangi verksmiðjunnar er ótímasettur en gert er ráð fyrir að hann geti komist í rekstur árið 2012. Raforkuþörf fyrir fyrri áfanga verksmiðjunnar er rúmlega 3.800 gígavattstundir á ári en rekstur síðari áfanga krefst tæplega 2.000 gígavattstunda á ári. Alls gera þetta um 5.800 gígavattstundir á ári.

Raforkuþörf og tímasetningar ráða mestu um hvaða virkjunarkostir koma til greina vegna álverksmiðjunnar. Þá verður einnig að horfa til þess að verulegar takmarkanir eru á getu byggðalínu til að flytja raforku frá Suðvesturlandi til Austurlands og að ekki eru uppi áform um að reisa flutningslínu frá virkjunarsvæðinu við Þjórsá norður Sprengisand og austur á land.

Í umsögn Orkustofnunar, sem er fylgiskjal með frv., er fjallað um helstu leiðir við öflun orku fyrir álver á Austurlandi. Þar kemur fram það mat stofnunarinnar að miðað við það samningsumhverfi sem verkefninu hefur verið skapað komi ekki önnur virkjunarleið til greina en að Kárahnjúkavirkjun verði meginuppistaðan í virkjunarframkvæmdum vegna raforkuþarfar álverksmiðjunnar. Orkustofnun telur að vandað hafi verið til útfærslu Kárahnjúkavirkjunar og í þeim efnum hafi víða verið gengið svo langt til móts við umhverfissjónarmið sem ætlast megi til án þess að stofna hagkvæmni verkefnisins í hættu. Mælir stofnunin með því að veita Landsvirkjun leyfi til að reisa og reka Kárahnjúkavirkjun.

Í umsögn Orkustofnunar kemur jafnframt fram að ljóst sé að Kárahnjúkavirkjun ein dugi ekki fyrir báðum áföngum álverksmiðjunnar. Þar skorti um 1.000 gígavattstundir á ári sem vart geti komið annars staðar að en frá jarðgufuvirkjunum á Norðausturlandi. Þetta svarar til þess að auka þurfi afl þessara virkjana um 120 megavött.

Í umsögn Orkustofnunar kemur fram að ekki sé unnt að fullyrða að bæði virkjun í Bjarnarflagi, sem lagaheimild er fyrir, og á Þeistareykjum verði þær hentugustu í þessu tilviki og því geti allt eins verið þörf á enn frekari áföngum virkjunar við Kröflu. Telur stofnunin rétt að Alþingi heimili iðnrh. að veita Landsvirkjun leyfi til að stækka Kröfluvirkjun í allt að 220 megavött en upphaflega var ráðgert að stækka virkjunina um 40 megavött.

Ýmsar hugmyndir hafa verið uppi um virkjanir jökulánna norðaustan Vatnajökuls á undanförnum árum. Á árunum 1970--1980 voru settar fram fyrstu markvissu áætlanir um hugsanlega virkjunarkosti á þessu svæði. Eftir að bygging Fljótsdalsvirkjunar frestaðist var að nýju farið að huga að virkjunarmöguleikum í jökulsánum á Brú og Fjöllum á árunum 1991--1994. Fyrsti áfangi þeirrar vinnu var lagður fram í skýrslu samstarfsnefndar iðnrn. og Náttúruverndarráðs um orkumál er fjallaði um samanburð á umhverfisáhrifum nokkurra virkjunartillagna á Austurlandi og kom hún út árið 1993.

Á grundvelli þeirrar vinnu var gerð tillaga að virkjunarleiðum á þessu svæði í yfirliti iðnrn. frá 1994, Virkjanir norðan Vatnajökuls, upplýsingar til undirbúnings stefnumótunar. Þar var lögð sú meginlína, í ljósi fyrri rannsókna, að virkjun Jökulsár á Brú með miðlun í Hálslón væri sú tilhögun sem líklegast væri að hefði minnst umhverfisáhrif þeirra hugmynda er þá voru til athugunar auk þess sem hún væri einna hagkvæmust. Þess má geta að í þessu yfirliti iðnrn. var fyrst minnst á þann möguleika að sameina virkjun í Jökulsá á Brú og Jökulsá í Fljótsdal með þeim hætti sem nú er gert ráð fyrir. Þar var kynnt sú hugmynd að virkjun Jökulsár í Fljótsdal mundi nýta miðlunarlón Jökulsár á Brú, Hálslón, sem yrði það stórt að það nýttist til miðlunar beggja vatnsfallanna og árnar yrðu síðan virkjaðar saman í einni virkjun.

Þá er í greinargerð með svæðisskipulagi miðhálendisins bent á þetta fyrirkomulag og gert ráð fyrir að þessi möguleiki verði skoðaður til hlítar sem raunin hefur orðið á.

Á árunum 1995--2000 var unnið að verulegum rannsóknum vegna Kárahnjúkavirkjunar sem beindust mest að hugsanlegum stíflustæðum og jarðgangagerð auk mikilvægra grunnrannsókna eins og kortagerð og vatnafarsrannsókna. Umfang þessara rannsókna var stóraukið á árinu 2000 í ljósi breyttra áforma um virkjunartilhögun. Þessar rannsóknir voru bæði vegna tæknilegs undirbúnings og vinnu við mat á umhverfisáhrifum.

Vinna við mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar hófst formlega í apríl 2001 og lyktaði með úrskurði umhvrh. 20. des. sl. Í úrskurðinum var fallist á framkvæmdina með 20 skilyrðum. Meðal skilyrðanna er að Landsvirkjun er gert að falla frá framkvæmdum við Hafursárveitu, Laugarfellsveitu, Bessastaðaárveitu og Gilsárvötn auk framkvæmda við Sultarranaveitu og Fellsárveitu. Í umsögn Orkustofnunar kemur fram að þessi skilyrði munu skerða orkugetu Kárahnjúkavirkjunar um rúmlega 200 gígavattstundir á ári.

Þá hafnaði umhvrh. fyrirkomulagi á yfirfalli úr Hálslóni eins og það var staðsett og hannað við stíflu í Desjárdal. Segir í úrskurðinum að hönnun aðalstíflu við Hálslón skuli breyta þannig að yfirfallsvatn úr lóninu verði leitt í Hafrahvammagljúfur. Í frv. er lagt til að yfirfall Hálslóns verði með þeim hætti að yfirfallsrennu verði komið fyrir við vesturenda Kárahnjúkastíflu. Frá yfirfallinu verði vatnið leitt eftir göngum undir stífluendann sem opnast í steyptan stokk nálægt gljúfurbarminum nokkur hundruðum metrum neðan við stífluna. Þaðan mun vatnið falla í 60--80 m háum fossi niður í Hafrahvammagljúfur.

Vegna þessa og ótraustra efstu berglaga á áður fyrirhuguðu stíflustæði fyrir gangagerð er nauðsynlegt að hliðra stíflustæðinu um 200 m niður með árfarveginum frá því sem áður var miðað við. Í athugasemdum frv. og greinargerð Landsvirkjunar er að finna nánari lýsingu á framkvæmdinni. Að öðru leyti er fyrirkomulag fyrri áfanga virkjunarinnar þannig að Jökulsá á Brú er stífluð við fremri Kárahnjúk með Kárahnjúkastíflu sem er 190 m há grjótstífla við syðri enda Hafrahvammagljúfra. Beggja vegna Kárahnjúkastíflu eru hliðarstíflur, Sauðárdalsstífla um 25 m há og Desjarárstífla um 60 m há. Með stíflunum er myndað miðlunarlón Jökulsár á Brú og að hluta Jökulsár í Fljótsdal, svokallað Hálslón. Vatnsborð við fullt lón verður í 625 m hæð yfir sjávarmáli og verður flatarmál þess 57 km2. Nýtanlegt miðlunarrými er áætlað um 2.100 gígalítrar miðað við lægstu vatnsstöðu, 550 m yfir sjávarmáli.

Úr Hálslóni verður vatninu veitt um 40 km löng aðrennslisgöng undir Fljótsdalsheiði að innsta hluta Fljótsdals þar sem stöðvarhús verður neðan jarðar. Í stöðinni verða í fyrri áfanga fimm vélasamstæður með tilheyrandi búnaði og verður uppsett afl þeirra allt að 625 megavött. Frá stöðinni verður vatninu veitt um frárennslisgöng út í Fljótsdal um 1 km innan við Valþjófsdal, en frá gangamunnanum verður grafinn frárennslisskurður út í farveg Jökulsár í Fljótsdal. Virkjað rennsli í fyrri áfanga er um 120 m3 á sekúndu. Uppsett afl verður allt að 625 megavött og meðalorkugeta 3.760 gígavattstundir á ári.

[11:15]

Í síðari áfanga virkjunarinnar er Jökulsá í Fljótsdal stífluð um 2 km neðan við Eyjabakkafoss. Þessi stífla verður rúmlega 30 m há og ofan hennar myndast um 1 km2 lón, svokallað Ufsarlón. Vatnsborð verður hið sama og í Hálslóni eða í 625 m hæð yfir sjávarmáli þegar það er fullt. Við þá vatnshæð mun lónið ná upp í Eyjabakkafoss. Frá Ufsarlóni verður vatninu veitt um 13,5 km löng göng að aðrennslisgöngum frá Hálslóni og með þessu fyrirkomulagi verður unnt að miðla að mestu rennsli beggja jökulánna í Hálslóni.

Þá verður svokölluð Hraunaveita gerð í síðari áfanga virkjunarinnar. Hún felst í því að fjórum þverám Jökulsár í Fljótsdal, þ.e. Kelduá, Grjótá, Innri-Sauðá og útrennsli úr Sauðárvatni, verður veitt í Ufsarlón skammt ofan Ufsarstíflu. Verulegur hluti vatnsvega Hraunaveitu verða jarðgöng. Stíflan í Kelduá verður langstærsta stífla í Hraunaveitu, um 25 m há, en aðrar stíflur verða mun minni.

Meðalrennsli til Kárahnjúkavirkjunar eykst um tæpa 25 m3á sekúndu með síðari áfanga virkjunarinnar. Þá verður jafnframt sjöttu vélarsamstæðunni bætt við í stöðvarhúsinu og aflið aukið í allt að 750 megavött. Með síðari áfanga virkjunarinnar vex orkugeta hennar um 910 gígavattstundir á ári, þ.e. í samtals 4.670 gígavattstundir á ári.

Í frv. er eins og áður segir lagt til að iðnrh. verði heimilað að veita Landsvirkjun leyfi til að stækka Kröfluvirkjun í allt að 220 megavött enda liggi fyrir mat á umhverfisáhrifum framkvæmdanna lögum samkvæmt. Landsvirkjun hefur að mestu lokið undirbúningi að stækkun Kröfluvirkjunar um 40 megavött og hefur Skipulagsstofnun fallist á mat á umhverfisáhrifum stækkunarinnar. Í úrskurðinum kemur fram að fyrirhuguð stækkun muni ekki hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér. Í athugasemdum við frv. er gerð grein fyrir stækkun virkjunarinnar.

Í frv. er gerð grein fyrir þjóðhagslegum áhrifum álverksmiðju í Reyðarfirði og tengdra virkjanaframkvæmda. Í greinargerð Þjóðhagsstofnunar kemur fram að horfur eru á að landsframleiðsla verði að meðaltali rúmlega 2% hærri og þjóðarframleiðsla 1,5% hærri á framkvæmdatíma en ef ekki yrði af álverksmiðju og virkjunum. Til lengdar gæti landsframleiðsla orðið rúmu prósenti hærri og þjóðarframleiðsla tæpu prósenti hærri. Að jafnaði verður fjárfesting um 12% hærri á árunum 2002--2013 en annars yrði. En þegar framkvæmdir standa sem hæst á árunum 2004--2006 verður fjárfesting um 40% hærri. Vinnuaflsnotkun vegna framkvæmdanna verður að jafnaði rétt innan við 0,5% af heildarframboði vinnuafls en mest verður eftirspurnin árið 2005 og gæti hún þá numið rúmlega 1% af vinnuaflsframboðinu. Eftir að framkvæmdum lýkur og álverksmiðjan hefur náð fullum afköstum má búast við að áhrif á viðskiptajöfnuð verði jákvæð. Miðað við óbreytt raungengi gæti útflutningur orðið um 14% meiri en annars fyrsta áratuginn eftir lok framkvæmda. Erlend skuldastaða sem hlutfall af landsframleiðslu verður þá svipuð og í grunndæmi skömmu eftir árið 2020.

Í greinargerð Þjóðhagsstofnunar kemur fram að mikið umfang framkvæmda á árunum 2004--2006 og snöggur samdráttur þeirra á árunum 2007 og 2008 gerir töluverðar kröfur til hagstjórnar svo að halda megi niðri verðbólgu og sporna gegn umskiptum í þjóðarbúskapnum vegna samdráttar framkvæmda árin 2007 og 2008.

Ljóst er að bygging og rekstur álverksmiðju og tengdra virkjana munu hafa veruleg samfélagsleg áhrif á Austurlandi. Frá árinu 1990 hefur íbúum á Austurlandi fækkað um nálega 1% á ári eða samtals um rúmlega 10%. Í þessu sambandi skiptir miklu að fólksfækkunin á Austurlandi hefur ekki orðið jöfn í öllum aldurshópum. Sé aldursskipting íbúa á Austurlandi borin saman við aldursskiptingu Íslendinga allra vantar nokkuð upp á að hlutfall fólks á aldrinum 20--34 ára sé það sama á Austurlandi og meðal þjóðarinnar í heild. Skoðanakönnun sem Félagsvísindastofnun hefur framkvæmt sýnir að 40% 18--20 ára fólks á Miðausturlandi hafa örugglega eða líklega áhuga á að starfa í álverksmiðjunni og að 17% brottfluttra Austfirðinga á aldrinum 25--49 ára telja líklegt að þeir muni flytja aftur til Austurlands ef af framkvæmdum verður. Ef af byggingu Reyðaráls verður munu um 10 þús. manns búa á Miðausturlandi í lok framkvæmdatíma en 7 þús. ef ekki verður af framkvæmdum.

Til lengri tíma litið skiptir miklu að strax í kjölfar virkjanaframkvæmda verði til varanleg störf í álveri á svæðinu. Þessi störf verða fleiri en sem nemur þeim fjölda starfa við framkvæmdir sem sennilegt er að unnin verði af fólki sem nú er búsett á Austurlandi. Mest fjölgun starfa verður að öllum líkindum í Fjarðabyggð og á Austur-Héraði og þar er því að vænta mestra áhrifa á íbúafjölda. Meðan á framkvæmdum stendur má vænta mikilla áhrifa á efnahag fólks og fyrirtækja á Austurlandi en umsvifin munu leiða til tímabundinnar spennu á vinnumarkaði. Aukin eftirspurn eftir vinnuafli mun nær örugglega leiða til almennrar hækkunar launa.

Á framkvæmdatímanum má búast við miklum áhrifum á afkomu fyrirtækja í verktakageiranum og fyrirtækja á sviði verslunar, þjónustu og samgangna. Veigamestu efnahagsáhrifin koma hins vegar fram á rekstrartíma virkjunar og álvers þegar skapast munu yfir 1.000 ný störf á Miðausturlandi. Varanleg fjölgun starfa á Austurlandi verður því að langstærstum hluta vegna álverksmiðjunnar þar sem rúmlega 600 bein störf verða til og um 400 afleidd störf með fjölbreytilegum menntunarkröfum.

Fyrirhugaðar framkvæmdir á Austurlandi munu leiða til mikillar atvinnusköpunar, hærri atvinnutekna og aukinna viðskipta á Miðausturlandi. Með verkefninu verður til ný atvinnugrein á svæðinu sem mun hafa jákvæð áhrif á margar aðrar atvinnugreinar er átt geta viðskipti við álverksmiðjuna. Verkefnið mun hjálpa ungu, menntuðu fólki sem á rætur á Miðausturlandi til að fá störf við hæfi og þar með stuðla að meira jafnvægi í aldursskiptingu íbúanna og draga úr brottflutningi. Auk þessa mun verkefnið leiða til samgöngubóta, bættrar grunngerðar og aukinnar þjónustu til hagsbóta fyrir íbúa svæðisins.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. iðnn.