Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 12:05:25 (4648)

2002-02-14 12:05:25# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[12:05]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson og aðrir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs ættu að láta vera að fiska í gruggugu vatni í þessu máli eða öðrum. Ég gæti auðvitað, ef út í það væri farið, spurt hvers vegna hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er ekki við þessa umræðu. Hvar er hann? Af hverju er hann ekki á mælendaskrá? Af hverju er hann ekki fyrsti ræðumaður umrædds stjórnmálaflokks?

Það má auðvitað spyrja hv. þm. Árna Steinar Jóhannsson: Hvernig ætlar hann að greiða atkvæði gagnvart þessu frv.? Er hann ekki flm. að frv. sem er til afgreiðslu í þinginu sem segir einmitt að þjóðin eigi að taka afstöðu í þessu máli? Ætlar hann þá að sitja hjá ef þjóðin á að ráða?