Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 12:07:58 (4650)

2002-02-14 12:07:58# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[12:07]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vísa til þess að flokkur hv. þm. hefur a.m.k. umrætt traust á hæstv. ríkisstjórn vegna þess að flokkur hv. þm. lagði fram tillögu um að menn ættu að bíða með ákvörðun um nýtingu og virkjanir þangað til fyrir lægi rammaáætlun um landnýtingu sem er unnin af hálfu framkvæmdarvaldsins og í umboði hæstv. ríkisstjórnar. Ef sú rammaáætlun hefði t.d. heimilað umræddar virkjanir ætlaði flokkur hv. þm. að samþykkja þær. Það var ekki hægt að skýra þá tillögu öðruvísi.

Ég hef ekki jafnmikið traust á ríkisstjórninni í þessum efnum og fólst í tillögu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Ég er þeirrar skoðunar að henni sé ekki að treysta og þess vegna hef ég verið talsmaður þess að menn notuðu tækifærið þar sem eru ógróin sár á þjóðarlíkamanum út af þessu, reyna að græða þau, reyna að ná lágmarkssátt með því að ná þessum þjóðgarði sem mundi þá útiloka t.d. virkjun vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum. Ég tel það skipta miklu máli.

Að því er varðar síðan traust mitt á þeim úrskurði sem kom frá umhvrh. skil ég ekki alveg andann eða tóninn í spurningu hv. þm. Það liggur alveg ljóst fyrir í ummælum mínum frá upphafi að ég taldi einungis fjögur þeirra 20 skilyrða sem þarna eru lögð fram skipta einhverju verulegu máli. Ég hef endurskoðað hug minn. Ég tel einungis þrjú þeirra skipta verulegu máli.

Spurt er: Tel ég að þarna hafi verið faglega að verki staðið? Ja, allt orkar tvímælis þá gert er. Mín afstaða er pólitísk alveg eins og afstaða hv. þm. er rammpólitísk í þessu máli. Ég ímynda mér að stór hluti af því sem hæstv. umhvrh. lagði fram sé af pólitískum rótum runninn. En ég fullyrði sem gamall verkamaður í þeim víngarði sem líffræðingar erja að sá hluti sem tekur til líffræðilegra og verkfræðilegra mótvægisaðgerða er faglega unninn. Og ég vísa til ýmissa sérfræðinga um það.