Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 12:16:37 (4654)

2002-02-14 12:16:37# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[12:16]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ástæða þess að ég dvel við nauðsyn þess að vega saman hinn efnahagslega ávinning og skemmdir sem verða á náttúrunni er að ég tel að það sé grundvallaratriði. Ég tel að ekki sé hægt að taka ákvörðun um mat á umhverfisáhrifum nema gera það. Við ráðumst í framkvæmdir til þess að beisla verðmætin sem liggja í náttúrunni og við vegum ávinninginn af því á móti þeim skaða sem við völdum. Það finnst mér að sé grundvöllur þessa og er algjörlega ósammála þeim sem eru annarrar skoðunar, þar á meðal hæstv. umhvrh.

Að því er þjóðgarðinn varðar sem við hæstv. iðnrh. höfum verið að ræða þá fæ ég hnút í magann þegar ég sé þá virkjana\-gleði sem birtist í pappírum frá Orkustofnun og fylgja þessu þskj. Ég taldi ýmsa kosti sem þar eru taldir upp löngu aflagða. Ég rifja það upp að ég og hæstv. forseti Halldór Blöndal höfum báðir lýst yfir úr þessum stóli að það komi aldrei til greina með beinum eða óbeinum hætti að virkja Dettifoss.

Hæstv. iðnrh. var spurð í upphafi umræðunnar hvernig hún ætlaði að skapa störf fyrir ungt fólk og konur á landsbyggðinni. Þjóðgarður sem yrði byggður upp á tíu árum og tæki til átta sveitarfélaga sem yrði ráðið af heimamönnum og kostaði 2,5--3,5 milljarða mundi skapa hundruð starfa í ferðaþjónustu og 80% þeirra starfa yrðu kvennastörf. Það er því eftir nokkru að slægjast þannig að ég hvet hæstv. iðnrh. til að skoða þetta afskaplega vel þegar hún hallar sér á koddann í kvöld.