Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 12:49:41 (4663)

2002-02-14 12:49:41# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[12:49]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Ef það er ekki byggðastefna að búa til 1.000 ný störf í einum landsfjórðungi veit ég ekki hvað byggðastefna er. Hv. þingmenn Vinstri grænna koma hér aftur og aftur og segja: Hvað á að gera fyrir Vestfirði? Hvað á að gera fyrir þennan stað og hinn? Það er auðvitað alveg rétt að þetta verkefni leysir ekki mál allrar landsbyggðarinnar, en það skiptir auðvitað gríðarlegu máli að fá þessi fjölmörgu nýju og fjölbreyttu störf inn í landshlutann. Er það ekki byggðastefna?

Ég þekki það vel frá Vesturlandi hvernig stóriðjan þar hefur lyft svæðinu, suðurhluta Vesturlandskjördæmis, lyft þessu svæði, bæði Akranesi, sveitunum í kring og Borgarnesi. Ástandið þar er allt annað en það var áður. Þetta er byggðastefna þó að hún taki ekki til alls landsins, þetta eina verkefni. Byggðamálin ræðum við svo væntanlega í næstu viku.

Af því að hv. þm. talaði um vilja Austfirðinga vil ég, með leyfi forseta, vitna í skoðanakönnun sem gerð var og sýndi að 75% ungra Austfirðinga á aldrinum 18--28 ára eru hlynntir álverinu og að 40% fólks á þessum aldri á Miðausturlandi hafa áhuga á að starfa í álverinu auk þess sem 17% brottfluttra Austfirðinga á aldrinum 20--49 ára telja líklegt að þau muni flytja aftur austur þegar álverið rís í Reyðarfirði. Forustumenn sveitarfélaga, atvinnurekendur og fulltrúar stéttarfélaga hafa lýst miklum áhuga á þessu verkefni og vilja samstarf um að hámarka jákvæð áhrif þess. Vilji heimamanna er ótvíræður þannig að ég spyr hv. þm.: Hvað annað en þetta verkefni er hún með í sigtinu? Hún hefur að vísu lagt fram tillögu um að setja 400 millj. í atvinnulífið á Austurlandi og ekki getað útskýrt hvernig eigi að fara með þá peninga. Hér er alvörudæmi á ferðinni og auðvitað eigum við að fagna því að með þessum öfluga hætti skuli eiga að lyfta atvinnulífinu á Austurlandi og fjölga þar fólki.