Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 13:51:29 (4667)

2002-02-14 13:51:29# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[13:51]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kom mér ekki á óvart að hv. þm. talaði gegn þessu verkefni en mér er efst í huga á þessari stundu hvar við værum stödd ef við hefðum aldrei farið út í stóriðjuframkvæmdir á Íslandi. Þá hefði ekki verið farið út í að tengja raforkukerfi okkar með byggðalínu og þar fram eftir götunum. Grundvöllur að hagsæld okkar í landinu á síðustu áratugum stafar náttúrlega af því að teknar voru afdrifaríkar ákvarðanir um uppbyggingu Ísals og virkjanaframkvæmdir á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu í því sambandi. Ég held að hv. þm. ætti að taka undir það með mér þó að hann gerði ekki meira en það.

Hann talar mikið um raforkukerfið sem slíkt og telur að þetta hafi áhrif á stöðu Rariks sem er ótengt mál. Hann hefði óskað þess, heyrist mér, að stofnað yrði sérstakt fyrirtæki til að selja álverksmiðjunni á Reyðarfirði raforku en það er ekki raunhæft. Það hefði verið mjög óhagstætt fjárhagslega og þess vegna er niðurstaðan sú að Landsvirkjun tekur að sér verkefnið. Það er lögbundið og það er hlutverk iðnrh. að heimila ekki virkjunina nema að ljóst sé að það hafi ekki áhrif á rafmagnsverð til almennings. Ég held því fram að umframarður Landsvirkjunar vegna þessa verkefnis auki líkurnar á að hægt verði að lækka raforkuverð til almenningsnotkunar. Þetta sem hv. þm. er að segja stenst því ekki og hann gefur sér rangar forsendur í öllum útreikningnum og allri röksemdafærslunni.

Svo talar hann um atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslum sem er að sjálfsögðu mikilvægt mál en það er stefna ríkisstjórnarinnar að nýta orkuna sem næst upptökum sínum og þess vegna er allt verkefnið sem við erum að tala um núna bundið við Austurland og ég skal tala um hitt meira á eftir.