Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 14:23:36 (4674)

2002-02-14 14:23:36# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[14:23]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Nú stendur yfir 1. umr. um frv. til laga um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar og menn koma hér í ræðustól og segja að hér sé á ferðinni eitthvert stærsta ef ekki alstærsta mál þessa þings. Hins vegar getur maður velt því fyrir sér, herra forseti, hvaða mat menn leggja á þetta og litið til þess hverjir eru hér til að taka þátt í umræðunni í salnum. Nú ætla ég ekki að taka við einhverjum athugasemdum um að menn sitji við sjónvarpsskjái sína. Ég ætla að vona að þeir geri það. Ég er að tala um þá sem gera sig líklega til að vera virkir í þessari umræðu, geta gripið inn í hana, komið inn til andsvara eða gefið skýringar. Þeir þurfa að vera í salnum. Þeir eru hér ekki. Hæstv. iðnrh. er hér að sjálfsögðu. En hvar er baksveit hennar? Hún er ekki hér.

Herra forseti. Ég leyfi mér að efast um að mikilvægi málsins sé jafnofarlega í hugum allra eins og mætti ráða af orðum einstaklinga.

Ýmsum spurningum er ósvarað þegar menn lesa þetta frv. og greinargerð sem því fylgir og auðvitað eru hér ýmis álitaefni sem eðlilegt er að sett séu fram við 1. umr. Það eru álitaefni og spurningar sem tekist verður á við í vinnu nefndarinnar. Formaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, hefur farið yfir þau álitaefni og þær skoðanir sem Samfylkingin leggur til grundvallar afstöðu sinni. Við viljum horfa til þjóðhagslegra áhrifa og hvernig við verður brugðist við stjórn efnahagsmála. Við viljum vita og fá á því tilteknar staðfestingar hvernig landið verður nýtt norðan Vatnajökuls að öðru leyti og við spyrjum að sjálfsögðu um arðsemi og það hafa fleiri gert í dag.

Sigurður Jóhannesson skrifar grein í Vísbendingu ekki fyrir löngu, herra forseti, þar sem hann bendir á tiltölulega einfalda leið til þess að það sé alveg ljóst að verkið sé arðbært og að sátt sé um efnahagshlið málsins. Hann bendir á að eðlilegast sé að þeir sem hafa trú á verkinu setji fé í það og hinir ekki. Ýmsar aðferðir eru til þess að finna þá aðila, herra forseti, og það gefur mér í þessari umræðu fyrst og fremst tilefni til þess að fjalla um auðlindapólitík þessarar ríkisstjórnar. Ég segi auðlindapólitík vegna þess að hér erum við að horfa framan í hluta hennar. Alltaf reglulega ræðum við auðlindapólitík vegna þess að Íslendingar nýta náttúruauðlindir að mjög stórum hluta sér til framfærslu. Nýting náttúruauðlinda er mjög stór hluti efnahagsstarfsemi okkar. Þess vegna er mikilvægt að hér sé til einhver auðlindapólitík. En við spyrjum, herra forseti: Hvar er hún?

Ég vil vekja á því athygli að með þessu litla frv. er verið að færa Landsvirkjun líklega álitlegustu virkjunarkosti þjóðarinnar. Frv. er fjórar greinar ef gildistökugreinin er talin með. Þetta á að gera þegar ekki er búið að ganga frá rammaáætlun, þegar ekki er búið að samþykkja ný raforkulög, þegar ekki er búið að ganga frá þeirri auðlindapólitík sem t.d. auðlindanefnd lagði til og ég ætla að gera grein fyrir hér á eftir. Þetta á að gera á sama tíma, herra forseti, og fyrir liggur frv. til nýrra raforkulaga sem er með allt önnur ákvæði en hér eru.

Í frv. til nýrra raforkulaga er talað um að virkjunarleyfi sé gefið út til 50 ára. Til hve margra ára eru Landsvirkjun afhentir þessir virkjunarkostir? Það er ekki nefnt. Það er bara inn í eilífðina.

Í frv. til nýrra raforkulaga er talað um að ef framkvæmdir hafa ekki hafist eftir fimm ár þá verði virkjunarleyfi afturkallað. Í þessu frv. eru árin orðin tíu. Í frv. til nýrra raforkulaga er sagt að ef virkjun er ekki komin í gang eftir tíu ár þá skuli leyfið afturkallað. Í þessu frv. eru þau orðin 15. Ég spyr, herra forseti: Eru menn að draga það að koma aftur inn með frv. til nýrra raforkulaga til þess að geta gengið svona frá málinu. Hvers lags pólitík er hér í gangi? Þetta er auðvitað með eindæmum. Auk þess, herra forseti, gerir frv. til nýrra raforkulaga ráð fyrir því að menn borgi fyrir leyfi og gert er ráð fyrir því að menn þurfi að inna af hendi greiðslu fyrir fyrir ýmsa hluti, eftirlit og annað. Hvar sér þess stað hér? Þetta á auðvitað að afgreiða áður en ný raforkulög taka gildi, eða hvað? Hér er ekkert samræmi hlutanna og því miður, herra forseti, gerir svona framkoma, þ.e. að leggja málið fram með þessum hætti, það að verkum að menn verða hér ekki jákvæðari en þeir þyrftu að vera, satt best að segja. Auðvitað hlýtur svona lagað að vekja upp ýmsar grunsemdir og ýmsar spurningar og það gerir það.

[14:30]

Frv. til nýrra raforkulaga er ekki komið fram. Þó er kominn miður febrúar. Ef við höfum skilið málið rétt áttu þau lög að taka gildi næsta sumar um mitt ár. Og það er fleira sem vantar, herra forseti. Ekkert af fylgifrumvörpum þess frv., t.d. breyting á lögum um Landsvirkjun, um raforkuver, breyting á orkulögum og vatnalögum, hefur sést enn þá og skyldi maður þó ætla að allt hefði það einhver áhrif á þá stóru ákvörðun sem hér er verið að taka. Herra forseti. Þetta eru ekki boðleg vinnubrögð, því miður. Þetta eru ekki boðleg vinnubrögð.

Menn verða að reyna að gera hlutina í réttri röð. Að samþykkja þetta frv. og ganga frá því einhverjum dögum áður en menn samþykkja frv. til nýrra raforkulaga er fráleitt. Menn verða að hafa þessa hluti í réttri röð þannig að það geti verið samræmi á milli þess sem þar kemur fram og þeirra skilmála sem Landsvirkjun er að fá með þessu frv. Þetta verður skoðað í nefndinni.

Herra forseti. Ég vil líka gera það að umtalsefni að auðlindanefnd skilaði sínu áliti fyrir einu og hálfu ári. Það hefur ekkert verið gert með það enn þá, ekki neitt. Þar er lögð upp sú lína að um samræmda stjórn á nýtingu náttúruauðlinda verði að ræða, samræmda stjórn, herra forseti.

Ef ég má vitna í kafla 2.6, þá segir:

,,Farsæl stjórn á nýtingu náttúruauðlinda er stefnir að því marki að tryggja hvort tveggja í senn, hagsæld þjóðarinnar í heild og vernd og viðhald auðlinda í þágu komandi kynslóða, er tvímælalaust eitt af brýnustu verkefnum nútímaþjóðfélags. Til þess að ná þessum markmiðum telur nefndin þörf samræmdrar stefnu og stjórnar á nýtingu náttúruauðlinda sem byggist á eftirfarandi meginatriðum:

Heilsteyptum lagaramma um hlutverk og ábyrgð ríkisins á ráðstöfun og nýtingu náttúruauðlinda.

Beitingu hagrænna stjórntækja á grundvelli vel skilgreinds eignar- eða afnotaréttar þar sem því verður við komið ásamt leiðréttandi sköttum og uppbótum þar sem það á við.``

Og nefndin gerði tillögu að nýju stjórnarskrárákvæði sem átti að leggja grunninn að þeirri auðlindapólitík sem hér yrði rekin. Það er eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds fara með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt þessara auðlinda og réttinda í umboði þjóðarinnar.

Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi til einstaklinga eða lögaðila.`` --- Takið eftir. --- ,,Þó má veita þeim heimild til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum og réttindum gegn gjaldi, að því tilskildu að hún sé tímabundin eða henni megi breyta með hæfilegum fyrirvara eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Slík heimild nýtur verndar sem óbein eignarréttindi.

Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt og á grundvelli sjálfbærrar þróunar og skal arði af þeim varið til þess að vernda auðlindirnar, rannsaka þær og viðhalda þeim, svo og til hagsældar fyrir þjóðina að öðru leyti.``

Nú spyr ég, herra forseti: Hvernig samræmist sú auðlindapólitík sem þarna er lögð til og almennt samkomulag var um því sem hér er verið að leggja til? Þetta eru bara tveir heimar sem hér eru að mætast.

Það er rétt að ítreka það að í þessu frv. til nýrra raforkulaga, sem ég veit svo sem ekki hvað hefur tekið miklum breytingum en væntanlega ekki grundvallarbreytingum, segir um framkvæmdir á landsvæðum í ríkiseign:

,,Ráðherra hefur heimild til að semja við þá aðila, sem fá leyfi samkvæmt lögum þessum til framkvæmda á eignarlöndum ríkisins, um endurgjald fyrir land og landgæði þau er um ræðir hverju sinni.``

En þetta er bara frv. sem er ekki komið fram enn þá. Þetta er bara frv. sem var rennt hér í gegn á síðasta degi þings í fyrra og hefur svo ekki sést síðan.

Herra forseti. Full ástæða er til þess að hafa áhyggjur af því hvernig þessi mál eru hjá okkur, í hvaða röð þau eru tekin og hvernig forgangsröðunin er, einfaldlega vegna þess að ef mönnum er annt um það verkefni sem hér um ræðir, ef mönnum er annt um að hér verði virkjað í sæmilegri sátt --- ég vil nú ekki að segja í sátt en í sæmilegri sátt --- og að Austfirðingar fái síðan að nýta það afl fyrir austan þá verða menn veskú að reyna að vinna hlutina almennilega hér inn.

Herra forseti. Það er alveg ljóst að sú virkjun sem hér er verið að tala um er forsenda þess að byggt verði álver fyrir austan og auðvitað mun það hafa áhrif. Að sjálfsögðu mun það mjög mikil áhrif á byggðina fyrir austan að þetta álver rís. Það mun líka hafa áhrif á Akureyri og það mun hafa mikil áhrif í Reykjavík. Hér er nefnilega um landsverkefni að ræða hvort sem við lítum á virkjun eða stóriðju. Þess vegna er ég ekki alls kostar sátt við það þegar hæstv. iðnrh. kemur hér og talar um þetta verkefni sem þröngt byggðaverkefni. Það er ekki þannig. Þjóðin öll stendur að þessu verkefni verði út í það farið og ef af því verður ávinningur mun þjóðin öll njóta þess, ef ekki mun þjóðin öll gjalda þess. Þetta er einfaldlega þannig. Þannig eigum við að tala um þetta. Þetta kemur okkur öllum við.

Hins vegar er alveg augljóst að þar sem verksmiðjan verður, ef álver rís, verða áhrifin mest. Og hver skilur ekki það fólk sem býr fyrir austan og hefur horft á húsin sín hrynja í verði, hver skilur ekki fólk sem vill sjá þennan ævisparnað sinn hækka í verði á ný? Hver skilur það ekki?

Herra forseti. Í greinargerð frv. um áhrif Noral-verkefnisins í hnotskurn segir, með leyfi forseta:

,,Fyrirhugað álver og tengd starfsemi mun leiða til samgöngubóta, bættrar grunngerðar og aukinnar þjónustu, til hagsbóta fyrir íbúa svæðisins. Bætt afkoma fólks og fjölgun íbúa mun leiða til öflugra menningar- og félagslífs á svæðinu og styrkja starfsemi stofnana, samtaka, félaga og hópa sem starfa á þessu sviði.``

Austfirðingar hafa lengi beðið eftir því að aflið fyrir austan væri virkjað vegna þess að þeir vita að auðvitað mun það hafa þessi áhrif ef álver verður byggt í þeirra ranni. Það er vísað hér í hvað bæjarstjórinn á Akranesi segir um álverið og stóriðjuna í Hvalfirði. Þetta efum við ekki. Ef menn setja svona stóra fjárfestingu á einhvern stað, fjárfestingu sem hefur í för með sér svona mörg störf, þá mun það eðlilega hafa áhrif og vissulega mun það hafa ýmis jákvæð áhrif fyrir Austurland. En það mun áreiðanlega hafa ýmis önnur áhrif sem menn eru kannski ekki byrjaðir að tala um í dag. En menn horfa að sjálfsögðu til þess að það er verið að styrkja þarna ákveðna hluti sem menn vilja sjá styrkjast. Menn vilja sjá möguleika sína til búsetu og til fjölbreytni atvinnulífsins á þessu svæði byggjast upp. Á því hef ég fullan skilning, herra forseti.

Það sem veldur hins vegar áhyggjum er hversu miklar væntingar hafa lengi verið bundnar við það að byggt yrði upp álver eða önnur stóriðja fyrir austan, að aflið yrði nýtt þar, vegna þess að menn hafa mátt horfa upp á það aftur og aftur að ekkert yrði af framkvæmdum. Það var rætt alveg sérstaklega hér þegar Alþingi samþykkti Fljótsdalsvirkjun fyrir rúmum tveimur árum. Þá var farið vandlega yfir þessa sorgarsögu. Þess vegna, herra forseti, er mikilvægt að menn vandi til verka og geri þetta þannig að það nái þá að verða úr þessu sá veruleiki sem búið er að boða, sem búið er að lofa. En ég er ekki viss um, herra forseti, að hér hafi verið búið þannig um hnúta að svo verði, því miður.

Það er náttúrlega ljóst að ef ekkert verður af framkvæmdum þá mun það hafa mikil og alvarleg áhrif á trú fólks á möguleikum á búsetu á þessu svæði. Og þó að helstu sjávarútvegsfyrirtæki standi betur á þessu svæði en fyrir tíu árum síðan þá er það einnig satt að þar verður ekki sú mannfjöldaaukning sem nægir til að bera uppi aukningu í þjónustu eða annað á þessu svæði. Jafnframt er ljóst að við samdrátt í mannfjölda fækkar líka þjónustutækifærum og það er einu sinni svo að ríkið hefur ekki staðið sig í því að efla opinbera þjónustu á vegum ríkisins á landsvæðum eins og fyrir austan.

Herra forseti. Eðlileg gengisskráning á undanförnum árum hefði verið landsbyggðinni stærri búhnykkur en það sem hér er verið að tala um. Það er nú svo merkilegt. Ef efnahagsmistök ríkisstjórnarinnar hefðu ekki verið þau sem menn eru núna tilbúnir til að viðurkenna, ef gengisskráningin á síðustu árum nýliðinnar aldar hefði verið eðlileg, þá væri staðan víða um land allt önnur en hún er núna. Það hefði líka, herra forseti, verið almenn aðgerð sem hefði breytt miklu alls staðar. En það er of seint að tala um það núna, þó auðvitað megi tala um það, en því verður ekki breytt.

Herra forseti. Við erum að tala hér um mjög stóra framkvæmd. Við erum að tala um framkvæmd sem er það stór að hún mun auka orkuvinnslu á Íslandi um 60%. Við erum að tala um virkjun sem er jafnstór og Búrfell, Sultartangi, Hrauneyjarfoss, Sigalda með miðlun í Þórisvatni og veitu Köldukvíslar þangað, allt samanlagt. Það er ekkert smáræði. Samt er íslenskt þjóðfélag orðið það myndugt, við erum orðin það rík, að þessi einstaka framkvæmd er ekki stærri hlutfallslega en þegar við fórum í Hrauneyjarfoss. Hún er þó nokkru minni hlutfallslega en þegar við fórum í Búrfellsvirkjun. Við erum ekki að tala um stærri framkvæmd en svo, ef við horfum á það í samhengi þjóðarframleiðslu okkar og stöðu í dag.

Eigi að síður erum við að tala hér um gríðarlega stóra fjárfestingu. Þess vegna skiptir okkur öll máli hvernig farið er í þetta og þess vegna köllum við eftir því að menn gæti þess að allir hlutir séu réttir og eins og þeir þurfa að vera, vegna þess að ef svo er ekki þá er áhættan hér of mikil.

Herra forseti. Ég óska eftir því að farið verði í að endurskoða þetta frv., og það hvernig Landsvirkjun verða afhentir þessir virkjunarkostir, í samræmi við það sem menn ætla að hafa sem auðlindapólitík á Íslandi. Mér finnst fráleitt að taka þetta mál út úr, afhenda Landsvirkjun þessa virkjunarkosti á öðrum kjörum en menn ætla síðan að starfa hér eftir örfáa mánuði varðandi raforkukerfið í landinu. Menn eru að tala um það, og hæstv. ráðherra gat þess í ræðu sinni eða andsvari áðan, að við séum að fara inn í breytt umhverfi þar sem gert er ráð fyrir samkeppni, m.a. um raforkuframleiðsluna.

Það er einhver rammur keimur, og hann ekki góður, af því þegar það er tiltekið á sama tíma og frv. sem lýtur þeim lögmálum sem ég rakti hér, er borið fyrir Alþingi og ætlast til þess að menn samþykki. Við hljótum, herra forseti, að krefjast þess að samræmi sé á milli þess sem ríkisstjórnin er að gera annars vegar hér varðandi Landsvirkjun og hins vegar varðandi það hvernig raforkumarkaðurinn á Íslandi á að líta út á næstu árum og um langa framtíð. Þarna verða menn veskú að taka til heima hjá sér. Þetta gengur ekki svona.