Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 14:48:11 (4677)

2002-02-14 14:48:11# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[14:48]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég horfi ekki á þetta mál á sama hátt og hv. þm. Ég lít svo á að við séum að vinna alveg fyllilega samkvæmt lögum og miðað við það raforkulagaumhverfi sem við búum við í dag og þess vegna sé ekki hægt að gera athugasemdir við þá málsmeðferð sem hér er til umfjöllunar.

Þegar hv. þm. talar um að þetta sé á allt öðrum forsendum en væntanlegt raforkulagaumhverfi kemur til með að verða -- ja, við skulum sjá hvernig frv. lítur út þegar því verður dreift. Ég fullvissa hv. þm. um að það styttist mjög í að það verði kynnt á hv. Alþingi. Ég vænti þess að það verði gert áður en þetta frv. verður að lögum.

Það var ekki rétt hjá hv. þm. að tala um að ég hafi keyrt í gegnum þingið eitthvert frv. sl. vor. Það var aldeilis ekki. Það var bara lagt fram til kynningar og það er það frv. sem hún er að vitna í.

Svo langar mig að koma að öðru. Hv. þm. sagði að ég talaði um þetta mál út frá mjög þröngum byggðasjónarmiðum. Það er ekki rétt. Ég lít þvert á móti svo á, og hef alltaf haldið því fram, að þetta verkefni væri fyrst og fremst mikilvægt fyrir þjóðarhag. Svo er alveg sérstakur bónus að það er mikilvægt byggðamál og mikilvægt sérstaklega fyrir byggð á Austurlandi. Í framsöguræðu minni komu ýmsar upplýsingar sem varða einmitt þetta verkefni og þetta mál allt sem þjóðarmál.