Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 14:51:38 (4679)

2002-02-14 14:51:38# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[14:51]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það sem vekur athygli í málflutningi hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur, 4. þm. Norðurl. e., er vitaskuld það að þingmaðurinn hv. beitir ýmsum krókum og flækjum til þess að reyna að færa fyrir því rök að rétt sé að fresta virkjun Kárahnjúka. Út á það gekk málflutningur hv. þm. Og hún gekk svo langt í því að hún sagði að einungis með því að taka frv. til baka og vinna öðruvísi að þessu --- hv. þm. talaði um að rammur þefur væri af frv., með leyfi hæstv. forseta --- það er augljóst að hún er að læða því inn, þingmaðurinn hv., að þetta mál sé í ósátt við fólk víðs vegar um landið og segir m.a. í ræðu sinni, með leyfi forseta:

Ef mönnum er annt um að hér verði virkjað í sæmilegri sátt, segir hv. þm., þá verður að fresta málinu.

Er þetta rödd Samfylkingarinnar á Austurlandi, að einungis sé hægt að ná sæmilegri sátt um þessa virkjun með því að slá henni á frest, gera þessa framkvæmd tortryggilega og reyna að drepa á dreif þeirri viðleitni sem er, að álver rísi við Reyðarfjörð? Er það þetta sem Samfylkingin á Austurlandi er að berjast fyrir? Er þetta sá stuðningur sem Samfylkingin er að veita Fjarðalistanum nú, Smára Geirssyni og öðrum þeim sem þar eru að berjast fyrir því að tryggja atvinnurekstur og grundvöll mannlífs á þessum slóðum?