Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 14:59:55 (4684)

2002-02-14 14:59:55# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., HBl
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[14:59]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það var mjög nauðsynlegt að fá fram andsvör hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur, hv. 4. þm. Norðurl. e., og í rauninni má segja ef maður hugsar málið gjörr að ekki komi á óvart að hv. þm. skuli með sínum hætti reyna að amast við því að farið verði nú í stórvirkjun á Austurlandi og undirbúið álver við Reyðarfjörð. Það vill brenna við hjá ýmsum gömlum alþýðubandalagsmönnum (SvanJ: Ha?) að halda sig við þá gömlu stefnu sem það fólk hafði í heiðri um áratugi og við getum rakið í gegnum söguna. Og hv. þm. er auðvitað gamall alþýðubandalagsmaður, gamall aðstoðarmaður ráðherra Alþýðubandalagsins, og kemur þess vegna ekki á óvart að hv. þm. skuli með þeim hætti nálgast þetta mál. (Gripið fram í.) Ég var að tala um hv. þm. en ekki afa hv. þm. (Gripið fram í.) Ég vona að hv. þm. skammist sín ekki fyrir sína pólitísku fortíð. (SvanJ: Ég er stolt af henni.) Gott og vel, og skammist sín heldur ekki fyrir þau sjónarmið sem hv. þm. hafði á sínum tíma.

[15:00]

Mér finnst alveg ástæðulaust fyrir þingmanninn að gera það. Það var skoðun þingmannsins á þeim tíma. Menn verða auðvitað að standa við skoðanir sínar, líka frá fyrri tímum, þó að menn kannski sjái síðar málin í öðru ljósi.

Það breytir því ekki að í andsvörum hv. þm. og líka í ræðu hennar var rauði þráðurinn sá að reyna með ýmsum hætti að gera frv. sem hér liggur fyrir tortryggilegt með mjög undarlegum röksemdaflutningi, m.a. þeim að frv. væri í hróplegu ósamræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar. Hvernig getur þetta frv. verið í hróplegu ósamræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar þegar það er flutt af ríkisstjórninni og ríkisstjórnin hefur þrásinnis lýst þeim skoðunum sínum á Alþingi að hún telji nauðsynlegt að fara í þessa virkjun? Ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir því að mjög miklum fjárhæðum sé varið til verklegra framkvæmda á Austurlandi til að undirbúa þessa virkjun. Þar að auki hefur verið lögð mikil áhersla á að flýta öllum nauðsynlegum rannsóknum og athugunum, bæði vegna umhverfismála og af hagkvæmnisástæðum til að flýta virkjuninni. Hvernig er þá hægt að segja að það sé í hróplegu ósamræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar að flytja frv.? Hvers konar málflutningur er það? Hvers konar bull er þetta, leyfi ég mér að segja og biðst afsökunar á orðinu ,,bull``.

Ég hlýt líka að segja að hv. þm. rökstyður ógeð sitt á frv. með því að ítreka í ræðu sinni það sjónarmið sem áður kom fram, þ.e. að einhver rammur keimur og ekki góður sé af frv. Í síðari ræðu sinni segir hv. þm. að það sé ákveðin lykt af frv. Það liggur alveg ljóst fyrir að með þessum ummælum er hv. þm. að lýsa þeirri skoðun sinni að ekki sé tímabært að reisa Kárahnjúkavirkjun og álver við Reyðarfjörð og alls ekki á þeim forsendum og með þeim rökstuðningi sem ríkisstjórnin leggur hér til. Með því vill hv. þm. drepa þessu máli á dreif og fresta framkvæmdinni. Og það er eðlilegt að ég spyrji hvort hér sé ekki rödd Samfylkingarinnar að tala, það er ósköp eðlilegt að ég spyrji að því. (Gripið fram í.) því að þessi hv. þm. er kjörin í Norðurl. e. og hefur, svo langt ég veit, látið það í ljós að hún hyggist bjóða sig fram í hinu nýja Norðausturkjördæmi.

Nú veit ég ekki af hverju varaformaður þingflokks Samfylkingarinnar, hv. 3. þm. Vesturl. Jóhann Ársælsson, er svona órólegur yfir þessu. Betra væri að hann reyndi þá að grípa þannig fram í að orðskil heyrðust til þess að maður vissi nákvæmlega hvað hann er að fara, í staðinn fyrir að hafa þetta tóman hávaða.

Auðvitað er algjörlega rangt hjá hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur að það sé sæmileg sátt um að fresta framkvæmdum við Kárahnjúka. Auðvitað er það rangt. Auðvitað voru þessi orð hv. þm. annaðhvort sögð í hugsunarleysi eða þá af einhverjum djúpstæðum misskilningi, að það yrði sæmileg sátt um að fresta málinu.

Ég hygg á hinn bóginn að hv. þm. hafi hitt naglann á höfuðið þegar hún lýsti þeim áhyggjum sem Austfirðingar hafa af því ef svo kynni að fara að þessum framkvæmdum yrði enn frestað. Ég hygg að hv. þm. hafi ekki gert neitt of mikið úr því þegar hún talaði um að fólk á Austurlandi, sem hefur séð hús sín hrynja í verði, sé að vona að ævisparnaður þess, sem liggur í íbúðarhúsum, muni vaxa á nýjan leik með álveri Við Reyðarfjörð og virkjun Kárahnjúka. Ég hygg að það sé öldungis ljóst að hv. þm. sagði satt þegar þar var komið ræðu hennar. En ég skildi ekki alveg samhengið á milli þeirra áhyggna sem hv. þm. hafði af atvinnu og búsetu fólks á Austurlandi og svo þeirri miklu og ríku áherslu sem hún lagði á það á hinn bóginn að þessum málum yrði öllum frestað og að málið væri vitlaust lagt fyrir hér á þinginu, ég tala nú ekki um þá hróplegu mótsögn sem felst í að segja að þetta frv. ríkisstjórnarinnar sé á móti stefnu ríkisstjórnarinnar.

Ekki þarf að fara langt né leita lengi að ummælum ýmissa ráðherra, hæstv. forsrh., hæstv. utanrrh. og ýmissa annarra, um þá ríku og miklu áherslu sem þingmenn Sjálfstfl. og Framsfl. leggja á að staðið verði að virkjun Kárahnjúka með þeim hætti sem hér er lagt til og samtímis verði farið í að reisa álver við Reyðarfjörð. Ég held að óhjákvæmilegt sé, herra forseti, að átelja að hv. þm. gefi annað í skyn og reyni að koma inn þeim hugmyndum hjá einhverjum að með þessum frumvarpsflutningi sé verið að vinna óeðlilega að málum eða á annan hátt en gert hefur verið.

Þegar hv. þm. finnur að því að Landsvirkjun séu afhentir þessir virkjunarkostir, þessir hagkvæmustu virkjunarkostir, með þeim hætti sem gert er, er hún vitaskuld að gagnrýna þau vinnubrögð sem verið hafa. Þetta er auðvitað skýrasti vottur þess að hv. þm. vill fresta málinu. En Landsvirkjun er nú einu sinni í eigu íbúa landsins, ríkisins, Akureyrarbæjar og Reykjavíkur. Þessi tvö stóru sveitarfélög og ríkið sjálft eiga Landsvirkjun og það er staðið að þessu með sama hætti og staðið var að Búrfellsvirkjun á sínum tíma en eins og við munum var Alþýðubandalagið mikið á móti því og barðist gegn Búrfellsvirkjun, löngu eftir að hún var risin raunar.

Auðvitað er þetta með sama hætti. Þegar verið er að reyna að fá arðsemi út úr því að nýta okkar náttúruauðlindir reyna menn á hverjum tíma, að teknu tilliti til náttúruverndar og umhverfis, að taka þann virkjunarkost sem hagkvæmastur er. Þetta er ekki nýtt í sögunni heldur hefur þetta ævinlega svo verið og mun auðvitað verða svo, að menn vilja nýta hagkvæmasta virkjunarkostinn. Það gefur auðvitað mestan arð í þjóðarbúið og þarf ekki að hafa um það mörg orð. Allt tal um að eðlilegt sé að fara aðrar leiðir er auðvitað útúrsnúningur.

Ég hef áður lagt á það áherslu, herra forseti, að nútímabyggðastefna felist m.a. í að reisa stóriðjufyrirtæki úti á landi. Þá vil ég að það komi líka glöggt fram að í mínum huga nær byggðastefnan ekki til svæðisins fyrir ofan Elliðaár. Nútímaleg byggðastefna nær einnig til höfuðborgarinnar, þess staðar sem við nú stöndum á, til Suðurnesja og allra byggða á landinu. Það er auðvitað þannig að á undanförnum áratugum hefur verið lögð mikil áhersla á það að reisa stóriðjuver á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess. Það hefur verið lögð mikil áhersla á að athuga t.d. virkjunarkosti og verið eytt til þess meiri fjármunum á þessu svæði hér en annars staðar á landinu.

Ég hef á hinn bóginn upp á síðkastið lagt á það ríkari áherslu en áður, um leið og ég minni á að ég hef ævinlega lagt ríka áherslu á að reisa stóriðju utan þessa svæðis, að í vor verði haldið áfram athugunum á Þeistareykjasvæðinu, sem nauðsynlegt er að gera ekki síður en á Trölladyngju, til að athuga hvort möguleikar séu á því að súrálsverksmiðja geti risið við Húsavík sem fengi orku frá Þeistareykjum. Hugmyndir eru um að hún komi annaðhvort þar eða þá hér á Reykjanesi, annaðhvort við Straumsvík eða Keilisnes. Ég tel auðvitað algjörlega óásættanlegt að menn láti við það sitja að athuga Trölladyngju, heldur fái Norðurland að njóta auðlinda sinna eins og hver önnur byggð. Í því er hin rétta byggðastefna fólgin að halla ekki alltaf á annan veginn.

Við getum líka velt því upp sem skiptir miklu máli í þessu sambandi, að á næstu árum getum við Íslendingar orðið okkur nógir um hráefni fyrir álverksmiðjurnar ef slík súrálsverksmiðja risi hér á landi.

Ég vil einnig, í tengslum við álver við Reyðarfjörð, minna á að einn af veikleikum landsbyggðarinnar er sá að þar eru ekki nógu mörg sterk fyrirtæki sem skila hagnaði og geta byggt upp atvinnustarfsemi í kringum sig. Á síðustu árum höfum við séð að í skjóli þeirrar fiskveiðistefnu sem hér er hafa risið sterk sjávarútvegsfyrirtæki sem vinna mjög fast að þróunarstarfi á hvers konar fiskeldi. Munar þar að sjálfsögðu mest um laxeldið og lúðueldið. Þau eru nú að fara að vinna að þorskeldi og hafa sett sér það markmið að ná Norðmönnum í þessum rannsóknum og sjá fyrir sér að innan tíu ára og kannski fyrr renni upp sú stund að við getum hér á landi framleitt kannski 100 þús. tonn af þorski í þorskeldi. Það yrði mjög mikill og góður stuðningur við þau nýtískulegu og framúrskarandi frystihús sem eru á sumum stöðum á landinu. Það er með þeim sterku sjávarútvegsfyrirtækjum, sem með þessum hætti byggja upp þróunarstarf í kringum sig og margvíslegan iðnað og útflutningsiðnað, sem við náum fremst. Þá er ég að tala um fyrirtæki eins og Marel og Sæplast, ég er að tala um DNG og önnur slík fyrirtæki. Þau hafa vaxið í skjóli hins sterka sjávarútvegs sem hér er.

Með sama hætti er ljóst að eftir að álver er komið á Reyðarfjörð mun það styrkja atvinnustarfsemi þar með margvíslegum hætti. Fólk hefur þá möguleika á að koma til baka, sem hefur farið burt og menntað sig með ýmsum hætti og þannig mun fjölga af þeim sökum. Margvísleg smáfyrirtæki munu rísa í kringum álverið en reynslan af stóriðjufyrirtækjunum eins og Ísal sýnir að slíkar verksmiðjur þurfa á því að halda að reglulegar siglingar séu milli þeirra og Evrópu, vikulegar siglingar, til að flytja álið jafnóðum á markað. Það veldur miklum óþægindum ef skipunum seinkar um einn eða tvo daga. Þess vegna er líka áríðandi, við þá álverksmiðju sem rís á Reyðarfirði, að gert verði ráð fyrir góðu gámaplássi, til að nýta sér þá þörf sem álverið hefur fyrir reglulegar skipakomur, fyrir almennan innflutning og útflutning fyrir landsmenn. Þá gæti komið upp sú staða að t.d. Miðnorðurland, Eyjafjörður og Akureyri, gætu valið um að þurfa ekki að una því að ein innflutnings- og útflutningshöfn sé á landinu eins og nú er heldur verði þær tvær. Önnur yrði við Reyðarfjörð og hin í Reykjavík og að sjálfsögðu væri hollt fyrir höfuðborgina að hafa einhvern við að keppa á þessum markaði. Þetta mun auðvitað lyfta Austurlandi og einnig með margvíslegum hætti styrkja stöðu Norðurlands.

[15:15]

Þegar rætt er við þá sem eru að velta fyrir sér fiskeldi á Austurlandi kemur fram að þeir sjá fram á mikið hagræði af því að hafa beinar vikulegar siglingar til Evrópu til að koma eldisfiski sínum ferskum á markað í Evrópu. Þannig er auðvitað ljóst að þessar framkvæmdir allar og þessi rekstur hefur ekki aðeins í þröngum skilningi byggðarlega þýðingu fyrir Austurland. Ef við lítum á afrakstur þessa atvinnurekstrar í heild sinni hefur hann mikla þýðingu fyrir þjóðfélagið allt.

Í skýrslu sem Þjóðhagsstofnun hefur gert um áhrif framkvæmdanna, kemur fram að landsframleiðsla geti orðið 1,5% hærri til lengdar og þjóðarframleiðsla tæplega 1% hærri. Þetta eru ekki litlar tölur. Reynum jafnframt að rifja upp að það sem olli hruninu 1988 og því að óhjákvæmilegt var að lífskjör færu þá versnandi hér á landi var að okkur Íslendingum hafði ekki auðnast að auka gjaldeyristekjur okkur. Þess vegna hlutum við að draga saman seglin í lifnaðarháttum okkar.

Þegar við horfum til framtíðar og hugsum okkur að byggja hér upp þjóðfélag með batnandi lífskjörum, auknum og nýjum tækifærum til menntunar og hugsum okkur að gera þjóðfélagið að betra þjóðfélagi í víðasta skilningi þess orðs, þá kennir nýleg reynsla okkur að við verðum að hyggja að gjaldeyrisöfluninni, hvernig við getum aflað gjaldeyris til þjóðarbúsins.

Hér eru fjölmargir þingmenn sem áttu sæti á þingi árið 1991, svo ég taki bara það ár, þegar lífskjaraskerðingin náði hámarki, af því okkur vantaði gjaldeyristekjur. Við getum reynt að rifja upp efnahagsástandið á þeim tíma og hvernig var að standa fyrir nýrri hugsun og nýjum framkvæmdum þegar fjárlög fóru lækkandi í krónutölu frá einu ári til annars eins og samdrátturinn var. Við getum einnig rifjað það upp að á Akureyri voru 800 manns á atvinnuleysisskrá. Ef við tölum um þessar tölur og hugleiðum á hinn bóginn hvernig við stöndum í dag, þau miklu tækifæri sem við höfum, er auðvitað sjálfsagt að afgreiða það frv. sem hér liggur fyrir og renna þannig stoðum undir það og gera mögulegt að Kárahnjúkavirkjun geti risið og álver við Reyðarfjörð.

Þetta er ekki aðeins mál Austfirðinga. Þetta er mál allrar þjóðarinnar. Þegar við erum að tala um mál af þessum toga þýðir ekki að styðjast við gamla sleggjudóma heldur verða menn að horfa nútímalegum augum á þetta mál. Eins og hv. þm. sagði raunar réttilega hefur þjóðfélagið áður tekið aðra eins áhættu. Við sem munum eftir þeim átökum sem urðu í kringum Búrfellsvirkjun og álverið við Straumsvík vitum að menn hafa mismunandi skoðanir. Sumir eru í orði kveðnu reiðubúnir til að segja að þeir vilji hafa verri lífskjör hér á landi en snúast svo þegar á reynir öndverðir við og þykjast aldrei hafa haldið fram slíkum skoðunum.

Þetta er ekki aðeins spurning um álver við Reyðarfjörð og Kárahnjúkavirkjun. Þetta er spurning um hvort okkur Íslendingum takist að bæta lífskjör okkar á næstu árum og hvort okkur takist að búa svo í haginn að þjóðinni geti fjölgað með eðlilegum hætti og menn geti vænst þess að eiga hér bjarta framtíð.