Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 15:20:20 (4685)

2002-02-14 15:20:20# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., ÞSveinb (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[15:20]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefur verið mikil gæfa fyrir mig sem nýliða á Alþingi að njóta leiðsagnar hv. þm. Halldórs Blöndals í störfum og ræðumennsku. Má með sanni segja að hann sé eins konar nestor í þessum sölum. Það olli mér því djúpum vonbrigðum að heyra hann verja drjúgum hluta ræðu sinnar áðan í að flytja skrumskælda útgáfu af ræðu hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur. Ég tel að það sé fyrir neðan virðingu hæstv. forseta.

Það gladdi mig hins vegar að fram skyldi koma að frv. til raforkulaga sem lagt var fram hér á síðasta ári er ekki stefna Sjálfstfl. í raforkulöggjöf. Við það vill hv. þm. ekki kannast og þá liggur það fyrir, herra forseti.