Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 15:59:19 (4705)

2002-02-14 15:59:19# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[15:59]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Þetta er nákvæmlega spurningin, að við fáum allar forsendur til að meta þessar framkvæmdir sem eru metnar á 350--400 milljarða króna. Er það ekki grundvallaratriði að við höfum allar forsendur til að byggja á en að ekki sé vísað í einhverja einstaklinga innan veggja Landsvirkjunar eða annarra stofnana, að við látum ekki bjóða okkur að þetta séu leynileg viðskiptagögn?

Hingað komu í vetur tveir Bandaríkjamenn sem hafa sérhæft sig í raforkugeiranum í Bandaríkjunum og þeir skýrðu okkur frá því að þar væru öll gögn af þessu tagi opin öllum. Vitið þið hverja er verið að leyna þessum gögnum? Hverjir skyldu það vera? Það erum við. Það er íslenska þjóðin. Álfyrirtækin, viðskiptavinirnir, fá hins vegar allt á borðin, þeir fá allt á sitt borð. En við ætlum að láta bjóða okkur það, og hæstv. ráðherra ætlar að bjóða Alþingi að við fáum ekki að sjá þessi gögn, við fáum ekki upplýsingar um grundvallarforsendur í þessu máli.