Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 17:46:01 (4739)

2002-02-14 17:46:01# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[17:46]

Þuríður Backman (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði áðan að þessar miklu, stórkostlegu framkvæmdir gætu valdið efnahagslegri kollsteypu og ég held að enginn mótmæli því. Þetta eru þvílíkar framkvæmdir og svo háar upphæðir að við þekkjum varla þessar tölur. Ég held að við getum öll verið sammála um að það verði ekki auðvelt að ganga í gegnum þetta tímabil.

Varðandi það hvort þetta muni styrkja búsetu á Austurlandi, þá mun það vissulega gera það og sérstaklega á miðsvæði Austurlands, frá Héraði að Fjarðabyggð og ef það koma jarðgöng milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar mun atvinnusvæðið stækka. Það er ekki mikið út fyrir það svæði sem þetta hefur áhrif.

Ég hef aldrei neitað því að framkvæmdin muni hafa, og sem betur fer, að langflestu leyti tímabundin jákvæð áhrif á þetta svæði. En ég er andvíg stóriðjustefnunni. Ég vil fara aðrar leiðir og ég tel að það sé á ábyrgð ríkisstjórnarinnar að bjóða eingöngu upp á þetta. Hún hefur dregið fólk á þessum hugmyndum í gegnum tíðina. Ekkert annað er í boði. Hverju á fólk þá að svara þegar það er spurt öðru en: Já. En vissulega er þörf á fleiri verkefnum. Það þarf að efla menntun. Það þarf að breyta sjávarútvegsstefnunni og það þarf að gefa landsbyggðinni og Austurlandi sérstaka innspýtingu. Við skulum þá horfa á fyrirtækin sem fyrir eru og styrkja þau. Við skulum koma með aðgerðir til þess að laða þangað að stórfyrirtæki á öðrum sviðum en stóriðju. Það er okkar sýn. En ríkisstjórnin ber ábyrgðina.