Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 20:00:46 (4754)

2002-02-14 20:00:46# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[20:00]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. virðist líta á það sem náttúrulögmál að þetta mál stjórnarinnar nái fram að ganga. Ég lít ekki svo á. Jafnvel þótt hv. alþingismenn verði svo ólánsamir að veita þessu máli brautargengi í atkvæðagreiðslu þegar þar að kemur efast ég samt um það að af þessum framkvæmdum verði. Ég er ekki farin að sjá, herra forseti, að hægt verði að fjármagna þetta álver. Hvernig eru fréttirnar í þeim efnum?

Af því að hv. þm. var að tala um lífeyrissjóðina rétt áðan þá skulum við aðeins skoða það mál. Hvernig koma stjórnir lífeyrissjóðanna að þessu máli? Eru þær kannski að brjóta lög um lífeyrissjóði með því svo mikið sem að hugleiða að fara út í þessar fjárfestingar? Hvað segir í lögum um lífeyrissjóði? Að lífeyrissjóðir megi fjárfesta allt að 15% í óskyldum rekstri. Hvað er að gerast í þessu máli? Standast þessar hugmyndir lög? Ég efast um það, herra forseti.

Þess vegna efast ég um að af þessum framkvæmdum verði.