Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 20:06:41 (4758)

2002-02-14 20:06:41# 127. lþ. 78.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[20:06]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er kannski ekki mjög ósammála hv. þm. eins og hann stillir málunum upp. Ég vil hins vegar spyrja hann að því hvort hann telji ekki málið þess eðlis --- af því að ég spurði hann í fyrra andsvari um aðkomu að málinu, að við höfum viljað nálgast það á breiðum grundvelli --- telur hann ekki bráðnauðsynlegt, eins og ég tel, að málið fari í raun og veru fyrir þrjár nefndir, þ.e. iðnn., efh.- og viðskn. og umhvn.? Það gera sér allir grein fyrir því að hér um umhverfsmál að tefla. Hér er um stórkostlegt efnahagsmál að tefla og náttúrlega líka iðnaðarmál. Gaman væri að heyra álit þingmannsins á því hvort hann telji ekki málið þannig vaxið.

Auðvitað þurfa fjárfestar að hafa einhvern grunn til að meta málið. Um það er pólitísk óeining, hvernig við eigum að stilla þessu upp. Sá grunnur er gefinn pólitískt, hvort Landsvirkjun á að gera þetta eða sérfyrirtæki. Nú liggur á borðinu að þetta verður Landsvirkjun en ekki sérfyrirtæki, það er nú eitt málið.