Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 21:18:59 (4776)

2002-02-14 21:18:59# 127. lþ. 78.3 fundur 457. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (barnalífeyrir) frv., Flm. GunnS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[21:18]

Flm. (Gunnlaugur Stefánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Í 1. mgr. 17. gr. laganna er mælt fyrir um að barnalífeyrir skuli einvörðungu greiddur með börnum örorkulífeyrisþega sem fædd eða ættleidd eru fyrir orkutap hans en ekki gert ráð fyrir að börn örorkulífeyrisþega sem fædd eru eða ættleidd eftir orkutapið geti átt rétt á barnalífeyri.

Gerð er tillaga í frv. um að stjúpbörn og fósturbörn örorkulífeyrisþega geti átt rétt til barnalífeyris.

Með öðrum orðum, Þetta frumvarp er flutt til þess að tryggja öllum börnum öryrkja jafnan lífeyrisrétt hvort sem þau eru börn öryrkjans, kjörbörn, stjúpbörn eða fósturbörn en í dag er 2. málsl. 1. mgr. 17. gr. svohljóðandi:

,,Sama rétt til lífeyris öðlast börn fædd eða ættleidd fyrir orkutap sjóðfélaga sem nýtur fulls örorkulífeyris.``

Með öðrum orðum er málið þannig statt nú að börn fædd eftir orkutap örorkulífeyrisþega eru ekki metin til lífeyrisbóta úr lífeyrissjóðum. Þetta á rætur að rekja til breytinga sem gerðar voru á skipan lífeyrissjóða árið 1993. Það var gert með sérstakri reglugerð á vegum lífeyrissjóðanna sjálfra og síðan var breytingin tekin upp í lögin 1997. Fyrir árið 1993 áttu öll börn rétt á lífeyrisbótum hvort sem þau voru fædd eða ættleidd fyrir eða eftir orkutap örorkulífeyrisþegans. Það er spurning um réttlæti, að öll börn sitji við sama borð og þetta er líka spurning um rétt öryrkjans til þess að fæða og ala börn.

Herra forseti. Að lokinni 1. umr. legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og allshn.