Verndun hafs og stranda

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002, kl. 21:57:02 (4785)

2002-02-14 21:57:02# 127. lþ. 78.2 fundur 492. mál: #A verndun hafs og stranda# (heildarlög) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 127. lþ.

[21:57]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra telur þetta ekki í sínu lögsagnarumdæmi og sjálfsagt má taka undir það að einhverju leyti. Þess vegna hnaut ég svolítið um orðalagið í 1. gr. Þar fjallar um athafnir ,,sem stofnað geta heilbrigði manna í hættu, skaðað lifandi auðlindir hafsins og raskað lífríki þess``. Ég mundi lesa þetta þannig að menn væru að vísa til allra athafna sem gætu valdið þessu. En auðvitað fara menn yfir það.

Ég held að það þurfi að taka svolítið á því hvernig eigi að fylgjast með, og hvernig yfirráðum ráðuneyta eigi að vera háttað. Þetta er þannig núna að sjútvrh. hefur eftirlit með þorskeldi í einum firði. Í næsta firði er landbrh. með eftirlit með laxeldi og síðan er umhvrh. í þriðja firðinum og hinum tveimur, með eftirlit með því sem hér er lagt til að fylgst verði með. Það þarf auðvitað að skilgreina hlutina þannig að ekki sé margverknaður í gangi og líka að það skarist helst sem minnst sem unnið er að.