Varnir gegn landbroti

Mánudaginn 18. febrúar 2002, kl. 17:42:20 (4853)

2002-02-18 17:42:20# 127. lþ. 79.9 fundur 504. mál: #A varnir gegn landbroti# (heildarlög) frv., landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 127. lþ.

[17:42]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um varnir gegn landbroti. Frv. er á þskj. 796 og er 504. mál á þessu hv. þingi.

Frv. er samið í landbrn. um varnir gegn landbroti. Um þetta efni er nú fjallað í lögum nr. 43/1975, um heftingu landbrots og varnir gegn ágangi vatna. Ljóst má vera hversu þýðingarmikið er að vinna gegn landeyðingu og gróðurskemmdum sem ágangur vatna getur valdið. Til að svo megi vera er mikilvægt að unnt sé að bregðast skjótt við og að skýrt sé hver hafi það hlutverk að stýra aðgerðum til að koma í veg fyrir landbrot. Í frv., eins og í gildandi lögum, er Landgræðslunni falið þetta hlutverk. Hér er lagt til að nafni Landgræðslu ríkisins verði breytt í Landgræðslan til samræmis við frv. til laga um landgræðslu sem einnig er lagt fram á þessu löggjafarþingi. Þegar um meiri háttar framkvæmdir er að ræða er sem fyrr gert ráð fyrir aðkomu Vegagerðarinnar. Í frv. er að finna það nýmæli að Landgræðslan skal einnig hafa yfirsýn yfir það hvar helst er þörf á að bregðast við ágangi vatna þannig að áætlanagerð og stefnumörkun í þessum málaflokki verður ljósari en verið hefur.

Með frv. er leitast við að einfalda það ferli sem felst í undirbúningi og framkvæmd aðgerða til að hefta landbrot af völdum vatna. Í gildandi lögum eru t.d. ákvæði um sérstakar matsnefndir í hverri sýslu. Á undanförnum árum hafa þær aðeins í fáum tilfellum verið virkar. Einnig eru þar ítarleg ákvæði um skiptingu kostnaðar vegna slíkra framkvæmda, en í reynd hefur reynst erfitt að fara eftir þeim ákvæðum. Í því frv. sem hér er lagt fram er gengið út frá þeirri meginreglu að sá beri kostnaðinn sem á samgöngumannvirkið eða veitumannvirkið sem verið er að vernda. Þetta á ávallt að vera sú viðmiðun sem litið er til þegar varnirnar beinast að landi eða mannvirkjum í eigu ríkis og sveitarfélaga. Aftur á móti er augljóst að einstaklingar hafa almennt ekki tök á að leggja út í slíkan kostnað. Því er gert ráð fyrir að Landgræðslan geti kostað framkvæmdirnar í slíkum tilvikum. Er það að mestu í samræmi við núgildandi lög og þær venjur sem mótast hafa við framkvæmd gildandi laga um heftingu landbrots og varnir gegn ágangi vatna.

Aðgerðir til varnar landbroti hafa á undanförnum árum og áratugum víða skilað afar mikilli sjálfgræðslu lands í skjóli varnargarða, sérstaklega við jökulsár. Beislun fallvatna skilar því oft verulegum landbótum sem ekki væri gerlegt að vinna að nema vötnin séu hamin. Þessar aðgerðir eru oft upphaf að endurheimt fyrri landgæða sem jökulvötn og síbreytileiki jökla höfðu áður oft og tíðum lagt í auðn. Vaxandi umhverfisvitund landeigenda og aukin umhyggja um velferð lands gerir síauknar kröfur til ríkisvalds til að takast á við afleiðingar flóða og annarra náttúruhamfara í fallvötnum landsins. Þó brýtur land miklu víðar en við jökulsár. Þessum lögum er ætlað að marka umgjörð ríkisvaldsins til þess að takast á við þau stóru verkefni.

Hæstv. forseti. Ekki verður við þessa umræðu ítarlega farið í þær breytingar sem lagðar eru til með frv. en vísað til greinargerðar og athugasemda við einstakar greinar sem er að finna í sjálfu þingskjalinu. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. landbn.