Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 19:05:44 (4947)

2002-02-19 19:05:44# 127. lþ. 80.15 fundur 194. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (afnám skylduaðildar) frv., Flm. HjÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[19:05]

Flm. (Hjálmar Árnason):

Forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, með síðari breytingum. Flutningsmenn eru auk mín hv. þm. Pétur H. Blöndal, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Jónína Bjartmarz.

Markmið þessa frv. er í rauninni afskaplega einfalt, það er að gera hverjum þeim sem skylt er að eiga aðild að lífeyrissjóði frjálst að velja sér sjóð til að greiða í enda standist sjóðurinn almennar kröfur og skilyrði um rekstur lífeyrissjóða. Þá er jafnframt gert ráð fyrir því að einstaklingar geti flutt lífeyriseign sína á milli sjóða en þó skuli líða að hámarki fimm ár frá því að tilkynnt er um flutninginn þar til hann getur átt sér stað.

Herra forseti. Lífeyrissjóðir eru ein mikilvægasta stoð velferðarsamfélags okkar. Það byggir á því að almenningur og atvinnurekendur setja til hliðar fé til að mæta efri árum einstaklinga. Þetta er ein af grunnstoðum velferðarkerfisins og er alveg einstakt í sinni röð. Markmið þessa frv. er ekki að breyta því grundvallaratriði. Hins vegar ber að líta á það sem lagt er fyrir, lífeyrissparnaðinn, sem eign einstaklingsins. Það er afskaplega mikilvægt að viðhalda skyldunni til lífeyrissparnaðar en jafnframt er líka rétt að árétta að hér er um eign einstaklings að ræða.

Spyrja má hvort einstaklingurinn eigi eitthvert val varðandi það hvar þessi eign hans, lífeyriseign, er vistuð. Samkvæmt gildandi lögum er ekki um slíkt val að ræða. Einstaklingnum er skylt að geyma fé sitt hjá tilteknum sjóðum, óháð því hvernig sjóðurinn er rekinn, óháð ávöxtun sjóðsins, í rauninni sjóði sem er háður eigin lögmálum. Einstaklingurinn hefur afskaplega takmörkuð tækifæri til að láta skoðun sína í ljósi um ávöxtun eða rekstur sjóðsins eða gera kröfur til frammistöðu.

Í framhaldi af þessu er eðlilegt að spyrja hvernig þeir sjóðir hafa staðið sig sem einstaklingar eru dæmdir til að greiða í. Samkvæmt upplýsingum frá árinu 1999 um sjóðina --- því miður hef ég ekki nýrri tölur en þær segja í rauninni kjarna málsins --- skilar sá með bestu ávöxtunina 22% en sá með lökustu er við 0% ávöxtun. Svo er allt þar á milli. Þarna er um gífurlega mikinn mun að ræða, herra forseti, og því má spyrja hvers einstaklingurinn eigi að gjalda, sá einstaklingur sem dæmdur er til að greiða í sjóð, setja eign sína í sjóð, sem skilar lítilli ávöxtun og horfa síðan á félaga sína greiða í aðra sjóði sem skila mun hærri ávöxtun. Það þýðir að þegar menn hyggjast nýta þessa eign sína á efri árum standa einstaklingar mjög ólíkt að vígi en hafa í raun ekki haft neitt um það að segja sjálfir.

Markmið frv. er að auka þennan rétt einstaklingsins, ekki að afnema lífeyrissparnað heldur að leyfa einstaklingnum að velja sér þann sjóð sem hann treystir best fyrir eigum sínum.

Því hefur verið haldið fram í umræðum um þetta frv., sem hófust kannski utan þingsins áður en þær fluttust hingað inn, að með þessari hugsun hrynji grunnhugsunin um lífeyrissjóði. Því hefur verið haldið fram, m.a. af ýmsum starfsmönnum lífeyrissjóða, annars vegar að lífeyrissjóðakerfið í sjálfu sér muni hrynja og hins vegar að fólk muni flýja einstaka sjóði, jafnvel að einstakir sjóðir muni meina einstaklingum aðgang. Þá er því til að svara að í gildandi lögum er skýrt tekið fram að einstökum sjóðum, sem starfa jú undir ströngu eftirliti, er óheimilt að meina einstaklingum aðgengi að sjóðnum á grundvelli kynferðis, hjúskapar, aldurs og þar fram eftir götunum. Þeir sjóðir sem gerðu sig því seka um slíkt væru einfaldlega að brjóta lög, og geri ég ráð fyrir að það kæmi þeim þá væntanlega í koll hvort sem það leiddi til breytingar á stjórn eða með öðrum refsiákvæðum.

Við flutningsmenn teljum að hér sé um afskaplega mikið réttlætismál að ræða, að einstaklingurinn geti valið sér þann sjóð sem hann treystir best til að ávaxta eigur sínar. Þess vegna er þetta frv. lagt fram. Ég ítreka að hér er ekki verið að vega að eða lögð til nein breyting á þeirri skyldu launþega að greiða í lífeyrissjóði. Við teljum að þetta sé réttlætismál og tryggi enn betur hin mikilvægu réttindi einstaklinga að geta valið sér þá sjóði sem þeir treysta best til að tryggja sér góð eftirlaunaár.

Um þetta þarf í rauninni ekki að fjölyrða frekar, herra forseti. Hér er verið að fjalla um aukinn rétt einstaklinga til að velja sér lífeyrissjóð. Hér er gengið út frá því að þetta grundvallarkerfi haldi áfram engu að síður. En rétt er að taka fram, herra forseti, að gert er ráð fyrir því að einstaklingur sem flytur sig á milli sjóða þurfi að tilkynna það með formlegum hætti og að frá því að tilkynningin berst sjóðnum geti viðkomandi sjóður haldið eign einstaklingsins í allt að fimm ár. Þetta ákvæði, herra forseti, er sett inn til að gefa viðkomandi lífeyrissjóði færi á að laga sig að þessari breytingu í fjárfestingarstefnu sinni og áætlunargerð. Það finnst okkur flutningsmönnum vera sanngirni og eðlilegt ákvæði.

Um þetta er ekki meira að segja, herra forseti. Og að lokinni umræðu mælist ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.