Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 19:25:17 (4951)

2002-02-19 19:25:17# 127. lþ. 80.15 fundur 194. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (afnám skylduaðildar) frv., Flm. HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[19:25]

Flm. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst vil ég segja að með slíkri frjálsri aðild að lífeyrissjóðum er alveg ljóst að sumir sjóðir verða vinsælli en aðrir. En þeir munu ekki verða vinsælli fyrir það að þeir veiti minni samtryggingu. Þeir munu verða vinsælastir sem líklegastir eru til þess að veita einstaklingunum besta ávöxtun, hæstu ávöxtun og varðveislu á eign einstaklingsins þannig að þegar einstaklingurinn byrjar að taka út úr sjóðnum þá eigi hann von á að fá sem mest. Þeir sjóðir verða vinsælastir.

Það sem í raun rekur okkur flutningsmenn til þess að flytja þetta eru einmitt ábendingar frá fjöldanum öllum af ungu fólki sem er að hasla sér völl á vinnumarkaði, er að byrja að borga í lífeyrissjóði, er að þreifa sig áfram milli vinnustaða og þarf að flakka á milli sjóða, en fær engu að ráða um það hvert það fer. En það er ekkert síður vegna hvatningar frá eldra fólki sem hefur sagt afskaplega bitra reynslu sína af því fyrirkomulagi sem ríkjandi eru í dag. Það lýsir því hvernig það hefur verið dæmt í vonlausa sjóði sem þessir einstaklingar, eldri borgarar, telja að hafi leikið sig grátt.

Ég ítreka jafnframt að ég sé ekki hvernig það eigi að riðla þeirri samtryggingarhugsun sem ég hygg að við hv. þm. Ögmundur Jónasson séum sammála um, þ.e. um mikilvægi samtryggingarinnar, þó að inn í þetta ákvæði sem ég hef ítrekað vitnað til, að sjóðum sé óheimilt að meina fólki aðgang á grundvelli hjúskapar, aldurs, heilsufars o.s.frv., væri bætt: ,,atvinna``. Ég trúi því ekki að starfsstéttin sé grundvöllur samtryggingarinnar. Um það hljótum við hv. þm. að vera sammála.