Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 19:29:01 (4953)

2002-02-19 19:29:01# 127. lþ. 80.15 fundur 194. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (afnám skylduaðildar) frv., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[19:29]

Ásta Möller:

Herra forseti. Til umfjöllunar er frv. til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, með síðari breytingum.

Með frv. er gert ráð fyrir að einstaklingum verði heimilt að velja sér lífeyrissjóð eftir því sem honum hugnast í stað þess að greiða í sameignarsjóði lífeyristrygginga í samræmi við kjarasamninga, lög eða sérsamninga, þar sem aðild að lífeyrissjóði ræðst að jafnaði af stéttarfélagsaðild eða starfsgrein, en í einhverjum tilvikum af búsetu. Jafnframt er gert ráð fyrir að viðkomandi geti flutt lífeyrisréttindi sem hann hefur áunnið sér í einum lífeyrissjóði til annars lífeyrissjóðs að eigin vali.

Ekki er ljóst af frv. hvort það sé ætlun flytjanda þess að sá réttur verði án takmarkana, þ.e. hvort viðkomandi geti flutt rétt sinn ítrekað eftir því sem honum hugnast eða hvort um eitt val verði að ræða. Það væri áhugavert að fá svar við því frá hv. þm. Hjálmari Árnasyni.

[19:30]

Ekki er gert ráð fyrir að frv. hrófli við skyldu einstaklinga til að vera í lífeyrissjóði heldur, eins og áður sagði, er miðað við að viðkomandi einstaklingur velji þann lífeyrissjóð sem hann treystir best til að ávaxta fé sitt og tryggja honum sem bestan lífeyri. Í grg. með frv. segir að þessi tilhögun muni ýta undir þróun um að lífeyrissjóður veiti réttindi háð kyni, aldri og jafnvel fjölskyldustöðu enda sé augljóst að yngra fólk myndi verðmætari réttindi en eldra fólk og því muni sjóðir sem yngra fólk sækir sérstaklega í vera vinsælli en aðrir sjóðir.

Í sjálfu sér má segja að sú grundvallarhugmynd sem kemur fram í frv. sé aðlaðandi, þ.e. að fólk eigi að ráða því sjálft í hvaða sjóði það kýs að leggja ákveðinn hluta ævisparnaðar síns sem á að mynda lífeyri þegar viðkomandi þarf á honum að halda. Það er í anda sjálfræðis einstaklinga að fólk hafi slíkt val, enda er um afar ríka persónulega hagsmuni að ræða.

Hins vegar eru aðrir mikilvægir þættir varðandi lífeyrissparnað og lífeyrisréttindi sem er ekki hægt að horfa fram hjá í þessu sambandi. Það er sátt um lífeyriskerfið eins og það er í dag. Lífeyriskerfi opinberra starfsmanna fór að byggjast upp rétt fyrir miðja síðustu öld en lífeyriskerfi á almenna markaðnum á í raun ekki nema þriggja áratuga sögu. Á næstu árum mun það styrkjast enn frekar og það gefur í dag vilyrði fyrir drjúgri afkomutryggingu fólks þegar það hættir störfum og fer á eftirlaun. Í raun má segja að með árangursríkri uppbyggingu samtryggingarkerfis um lífeyrisréttindi á undanförnum árum þar sem ávinnsla réttinda er almennt óbundin aldri, kyni og hjúskaparstöðu hafi verið rennt einni mikilvægustu stoðinni undir bætta velferð lífeyrisþega í framtíðinni.

Herra forseti. Enginn veit sína ævina. Sumir greiða áratugum saman í lífeyrissjóði og þegar þeir ætla að njóta afraksturs þess og fara á lífeyri milli sextugs og sjötugs falla þeir frá. Þeir deyja. Þetta fólk nýtur ekki þeirra lífeyrisréttinda sem það hefur aflað sér og hefur getað treyst á að bíði þess við starfslok af eðlilegum ástæðum. Aðrir hins vegar njóta langra ævidaga, geta vænst þess að lifa góðu og innihaldsríku lífi í tvo, þrjá, jafnvel fjóra áratugi eftir að launuðum störfum lýkur. Slíkir lukkunnar pamfílar hafa strangt til tekið ekki lagt inn fyrir lífeyri til svo margra ára. Ef viðkomandi hefði lagt sömu upphæð til hliðar til séreignar og ávöxtunar væri sú eign löngu uppurin þegar að leiðarlokum er komið.

Það er einnig staðreynd að konur lifa lengur en karlar þannig að frá tryggingafræðilegu sjónarhorni eru þær dýrari lífeyrisþegar. Hið sama á við um gifta karla. Þeir lifa lengur en ógiftir karlar, ef ég man rétt, og af ástæðum sem er kannski ágætt að taka til umræðu en ekki að svo stöddu. Þegar hinn tryggði fellur frá reynir á aðra þætti hjá sjóðfélögum sem eru giftir, vegna makalífeyris, og hjá þeim sem eiga börn, vegna barnalífeyris. Tryggingafræðilega eru þessir einstaklingar dýrari en þeir sem eru ógiftir og barnlausir.

Augljóslega eru einnig hinir veiku, þeir sem verða öryrkjar og þeir sem geta t.d. átt von á að erfðasjúkdómar geri þá óvinnufæra um aldur fram, dýrari en aðrir. Og hér tekur á grundvallarhugmyndum samtryggingar í lífeyrissjóðunum. Áhættan er tekin á samtryggingargrunni með það að leiðarljósi að ávinnsla réttinda tveggja sambærilegra einstaklinga til lífeyris er jöfn hvort sem um er að ræða ellilífeyri, makalífeyri, barnalífeyri eða örorkulífeyri. Fólk hefur sömu möguleika á að afla sér réttinda úr lífeyrissjóðum hvort sem viðkomandi er ungur eða gamall, karl eða kona, giftur eða ógiftur, á börn eða er barnlaus, er í áhættusömu starfi eða ekki, eða líkur á veikindum eða örorku eru meiri eða minni. Hins vegar ráða þessir þættir augljóslega því í hve miklum mæli viðkomandi þarf að nýta sér þau réttindi sem hann aflar sér. Helst vildu náttúrlega allir vilja vera lausir við að nýta sér bæði maka- og barnalífeyri því til að sá réttur vakni þarf viðkomandi sjóðfélagi að vera fallinn frá. Enginn hefur áhuga á að nýta sér örorkulífeyri, sem þó munar öllu fyrir þá sem verða öryrkjar, og flestir vildu að sjálfsögðu geta nýtt sér ellilífeyri sem allra lengst við góða heilsu. Fæstir hafa þó vald til að ráða þessu og því eru lífeyrissjóðirnir mikilvægur bakhjarl þegar á reynir.

Þetta er lífeyriskerfið sem við erum stolt af og þjóðirnar í kringum okkur hafa öfundað okkur af. Ég tel að ekki sé ástæða til að hrófla við þessu kerfi sem virkar vel. Það gætir jafnræðis, og ávinnsla réttinda mismunar ekki fólki eftir kyni, hjúskaparstöðu og aldri. Tilgangurinn er að styðja við fólk sem vegna örorku getur ekki aflað sér launatekna, greiða lífeyri til maka og/eða barna við fráfall framfæranda og greiða eftirlaun til þeirra sem lokið hafa störfum sökum aldurs. Þetta fólk nýtur greiðslna úr lífeyrissjóðum í samræmi við reglur þeirra um ávinnslu réttinda hvers og eins.

Skylduaðild að lífeyrissjóðum hefur verið ein af meginstoðum íslenska lífeyriskerfisins í þessum efnum. Lífeyriskerfið hefur verið byggt upp með samkomulagi milli samtaka launagreiðenda og launamanna yfirleitt í frjálsum samningum, og breytingar á lífeyrisréttindakerfunum hafa ætíð verið gerðar í nánu samráði aðila, hvort heldur réttindin eru ákvörðuð með lögum eða kjarasamningum. Lífeyrisréttindi eru jafnframt mismunandi milli sjóða. Þannig eru t.d. réttindi hjá Lífeyrissjóði opinberra starfsmanna, hjá ríki, sveitarfélögum og bankamönnum, betri en hjá sjóðum á almenna markaðnum. Réttindi sjóðfélaga í þessum sjóðum eru og hafa ætíð verið órjúfanlegur hluti af heildarkjörum þeirra og um þau hefur verið samið í gegnum tíðina. Og það getur verið mjög erfitt að koma við vali milli sjóða vegna þessa.

Ef farin er sú leið að heimila fólki að velja aðild að lífeyrissjóðum eftir því sem fólki hugnast og líst best á hverju sinni er eðlilegt að spyrja einnig hvort sá réttur þurfi ekki einnig að vera gagnkvæmur, að lífeyrissjóður geti þá einnig valið þá úr sem þeir vilja tryggja. Slíkt kerfi býður augljóslega upp á að framsæknustu lífeyrissjóðirnir velji eingöngu ungt fólk, helst karla sem eru ógiftir og barnlausir og hafi erfðasjúkdóm sem leiðir þá til dauða u.þ.b. þegar þeir eru að fara á lífeyrisaldur, ekki fyrr. Þá eru þeir búnir að greiða full iðgjöld alla sína starfsævi en deyja, falla frá, áður en þeir fara að nýta réttindi sín. Þetta eru arðsömustu einstaklingarnir.

Ef að auki er gert ráð fyrir mismunandi iðgjöldum eftir kyni, aldri, hjúskaparstöðu, barnafjölda, svo ég tali ekki um genasamsetningu, held ég að við séum komin á verulega ranga braut. Slíkir sjóðir gætu hafnað að taka við iðgjöldum eldra fólks því að iðgjöldin ávaxtast í svo stuttan tíma að þau eru ekki arðbær. Einnig gæti slíkur sjóður hafnað t.d. umsókn konu þar sem fjölskylda hennar er þekkt að langlífi. Slík kona er einnig óarðbær í skilningi lífeyristrygginga.

Herra forseti. Með núverandi kerfi er áhætta þeirra sem eiga aðild að lífeyrissjóði jöfnuð út og það er tilgangur með lífeyristryggingakerfunum. Af þessu má því vera ljóst að ég er mótfallin breytingum í þá veru sem flutningsmenn frv. leggja til og mun ekki styðja það.