Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 19:42:35 (4956)

2002-02-19 19:42:35# 127. lþ. 80.15 fundur 194. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (afnám skylduaðildar) frv., Flm. HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[19:42]

Flm. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Ekki ætla ég að fara að metast um það hvort sjóðirnir séu umdeildir eða ekki, fyrir því liggja ekki neinar vísindalegar athuganir. Við höfum hins vegar ólíka skoðun á því. Mér nægir sá fjöldi fólks sem ég hef rætt við, ungt fólk, og eldra fólk sem lýsir megnri óánægju.

Í annan stað kemur það fram að einstaklingum er heimilt samkvæmt frv. að velja ólíka sjóði, fara á milli sjóða, en til þess þurfa að líða fimm ár. Það þurfa að líða fimm ár áður en einstaklingur getur fært eign sína á milli sjóða. Það er einmitt lagt til með það í huga að stjórnir lífeyrissjóðanna og starfsmenn geti gert rekstraráætlanir og ávöxtunarplön fram í tímann.

Meginatriðið er --- ég ítreka það enn einu sinni --- að ætlunin er ekki að hreyfa við skylduaðild, þvert á móti er lögð áhersla á að einstakir sjóðir geti ekki meinað einstaklingum inngöngu, og þeir eigi heldur ekki að geta meinað hana neinum á grundvelli atvinnu. Það er það atriði sem við viljum bæta við allt annað sem tekið er fram í lögum um lífeyrissjóði, um hjúskap, aldur, heilsufar o.s.frv. Ég trúi því einfaldlega ekki að það að bæta þessu eina orði við, að ekki megi meina einstaklingi á grundvelli stéttar sinnar eða atvinnu, muni setja samtryggingarkerfið í uppnám. En það er verk að vinna í hv. efh.- og viðskn. að skoða þessa þætti.