Skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 19:53:19 (4960)

2002-02-19 19:53:19# 127. lþ. 80.15 fundur 194. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða# (afnám skylduaðildar) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[19:53]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Í greinargerðinni segir:

,,Valfrelsið, sem hér er lagt til, mun flýta þeirri þróun, sem þegar er hafin ...``

Það sem verið er að leggja til í frv. mun þá flýta því sem þingmaðurinn sagði hér áðan að hann mundi leggjast gegn.

Jæja, gott og vel með það. Ég vil hins vegar reyna að skilja þetta frv. Það vefst afar mikið fyrir mér að skilja þessa reglu um að einhver megi fara á milli sjóða og síðan eigi hann að bíða í fimm ár þangað til réttindin hans flytjast.

Nú vil ég setja upp dæmi fyrir þingmanninn og biðja hann að skýra út fyrir mér hvað gerist. Maður gengur úr sjóði A. Hann fer yfir í sjóð B og er þar í tvö ár. Hann óskaði eftir því þegar hann fór úr sjóði A yfir í sjóð B að flytja með sér réttindin. Þau eiga að fara þangað eftir fimm ár.

Eftir tvö ár fer hann í sjóð C og er þar í þrjú ár. Er það þá svo að þegar maðurinn er farinn úr sjóði B þá fari réttindin hans þangað eftir fimm ár þó að hann sé búinn að vera þrjú ár í sjóði C? Eða hvert fara þá réttindin?

Þýðir þetta í raun eins og það er útfært að réttindi mannsins geti verið á flakki löngu eftir að hann hefur farið úr sjóði sem hefur borið lélega ávöxtun?