Sala Landssímans

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 15:11:34 (4973)

2002-02-25 15:11:34# 127. lþ. 81.1 fundur 352#B sala Landssímans# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[15:11]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er langbest að það fari saman, að menn séu bæði grænir og vinstri sinnaðir.

Ég held að hæstv. ríkisstjórn, ráðherranefnd um einkavæðingu --- það vill svo til að ég fletti upp á skipunarbréfi einkavæðingarnefndar og þar kemur fram að nefndin starfar á ábyrgð ráðherranefndar þannig að hér er um mjög sérstaka stjórnskipaða nefnd að ræða. Hún er á ábyrgð ráðherranefndar í hverri ráðherrar beggja stjórnarflokkanna sitja --- ég held að þessi ágæta nefnd og nefndin sem starfar í umboði hennar, einkavæðingarnefndin, ættu að huga að því að þetta fyrirtæki þarf starfsfrið. Þarna vinnur starfsfólk og þarna er afar mikilvægum verkefnum sinnt. Það getur ekki verið þessu fyrirtæki til framdráttar eða þessu fólki þægilegt sem þarna er að reyna að vinna vinnuna sína. Það getur ekki verið gott að vinna við þetta ástand þegar svo við bætist að það veit aldrei frá degi til dags hver komi til með að eiga það þegar það vaknar að morgni. Þessu ástandi verður að linna, herra forseti, og ég geri þá kröfu að ríkisstjórnin taki af ábyrgð á þessu máli.