Virðisaukaskattur á umferð undir Hvalfjörð

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 15:33:51 (4988)

2002-02-25 15:33:51# 127. lþ. 81.1 fundur 356#B virðisaukaskattur á umferð undir Hvalfjörð# (óundirbúin fsp.), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[15:33]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Svarið við þessum spurningum er nei. Að vísu er mér illa við að notast skuli við orðið sanngirni þarna í lokin. Ég vil ekki vera ósanngjarn en ég held að orðið eigi ekki við í því samhengi sem það var notað í spurningunni.

Það verður að hafa í huga að þegar þessi göng voru lögð var það ákveðið á ákveðnum forsendum. Ein af þeim forsendum var sú að virðisaukaskattur yrði greiddur af þeim tekjum sem þetta hlutafélag sem þarna á hlut að máli hefði af viðskiptum sínum við þá sem fara um göngin. Ég minnist þess að eitt fyrsta verkefni mitt á Alþingi sem fjmrh. var að fá þennan skatt lækkaðan, úr 24,5% í 14% til þess að greiða fyrir verkinu og ganga þannig frá því að þessi reikningsdæmi öll gengju upp. Þannig verður það að vera. Það er ekki hægt að hverfa frá þessu eftir nokkur ár eins og hv. þm. leggur hér til og hefur lagt til við önnur tækifæri.

Það er auðvitað rétt að þeir sem keyra um göngin borga þennan skatt og þá í þeim hlutföllum milli landshluta sem um er að tefla. Ég hef að sjálfsögðu ekki rannsakað það. En þá verða menn líka að taka með í reikninginn hversu mikla peninga þeir spara sér með því að keyra ekki fyrir Hvalfjörðinn, sem allir eiga auðvitað kost á ef þeir vilja frekar gera það en borga virðisaukaskattinn. Það er langbest að tala alveg skýrt um þetta mál og gefa ekki undir fótinn með hluti sem ekki geta gengið upp. Þess vegna segi ég nei við fyrstu spurningunni og nei við hinum jafnframt.