Málefni Þjóðmenningarhúss og Þjóðskjalasafns

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 15:52:06 (4992)

2002-02-25 15:52:06# 127. lþ. 81.94 fundur 351#B málefni Þjóðmenningarhúss og Þjóðskjalasafns# (umræður utan dagskrár), forsrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[15:52]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Varðandi þann þátt sem hér er ræddur um það mál er snertir forstöðumann Þjóðmenningarhúss og viðbrögð við því þá hefur Ríkisendurskoðun gert alvarlegar athugasemdir við embættisfærslur forstöðumanns, einkum að því er varðar fjársýslu fyrir þessa stofnun, í greinargerð dags. 4. febrúar. Það kemur reyndar fram í lok greinargerðarinnar, öfugt við það sem þm. hv. sagði hér, að Ríkisendurskoðun telur á þeim engra frekari rannsókna þörf. Það stendur nú bara svart á hvítu (Gripið fram í.) þar.

Sem fyrstu viðbrögð við þessum athugasemdum sendi forsrh. forstöðumanninum þegar í stað erindi þar sem fram kemur, eins og þar segir, að fallist sé á niðurstöðu Ríkisendurskoðunar og að í mörgum tilvikum talið, eins og þar segir, að um ámælisverða framkvæmd sé að ræða. Jafnframt kom þar fram að ráðuneytið legði áherslu á, eins og þar segir, að úr öllum þessum annmörkum verði þegar bætt og mannahaldi og ákvörðunum um greiðslur til einstaklinga fyrir einstök verk hagað þannig að hafið sé yfir allan vafa. Ekkert í þessu erindi gat hins vegar gefið forstöðumanninum eða öðrum tilefni til að ætla að um lyktir málsins væri að ræða. Í erindinu kom þvert á móti fram að ráðuneytið teldi þá framkvæmd sem Ríkisendurskoðun gerði athugasemdir við í mörgum tilvikum ámælisverða. Framkvæmd hans sætti hins vegar ekki ámæli af hálfu ráðuneytisins að svo stöddu, enda var því bæði rétt og skylt að taka sér lengri tíma til að kanna hvaða ráðstafana misfellur af þessu tagi gæfu tilefni til og eftir atvikum samkvæmt stjórnsýslulögum að gefa forstöðumanninum tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum og andmælum á framfæri. Síðan þá hefur komið fram að ríkissaksóknari telur greinargerðina gefa sér tilefni til að kanna sérstaklega hvort ástæða sé til þess að fram fari opinber rannsókn á embættisfærslum forstöðumannsins. Jafnframt hefur komið fram að stjórn Þjóðmenningarhússins telur forstöðumanninn hafa veitt henni rangar upplýsingar þegar hún samþykkti eftirvinnugreiðslur til hans.

Að athuguðum þessum ávirðingum sem á forstöðumann Þjóðmenningarhússins eru bornar í greinargerð Ríkisendurskoðunar og þeim upplýsingum sem síðar hafa komið fram um að ríkissaksóknari telji ástæðu til þess að kanna hvort þær gefi tilefni til opinberrar rannsóknar og að stjórn Þjóðmenningarhússins hafi byggt ákvarðanir sínar á röngum upplýsingum frá forstöðumanninum, hef ég ritað forstöðumanninum svohljóðandi bréf, með leyfi forseta:

,,Ríkisendurskoðun hefur í hjálagðri greinargerð, dags. 4. þessa mánaðar, gert alvarlegar athugasemdir við fjárreiður, störf og aukastörf yðar sem forstöðumanns Þjóðmenningarhússins. Þau atriði, sem þar um ræðir, varða sérstaka vinnu eða verkefni fyrir Þjóðmenningarhúsið annars vegar og Þjóðskjalasafnið hins vegar, tímabundinn ráðningarsamning við eiginkonu yðar auk verktakagreiðslna til hennar, lántöku yðar úr sjóði stofnunarinnar, ferðakostnað, sem ekki tengist stofnuninni, og greiðslur fyrir akstur.

Greinargerð þessi var birt yður með erindi mínu til yðar, dags. 7. sama mánaðar, þar sem fram kom að fallist væri á niðurstöður Ríkisendurskoðunar og talið að sú framkvæmd, sem stofnunin gerði athugasemdir við, væri í mörgum tilvikum ámælisverð. Auk þeirra athugasemda, er fram koma í greinargerð Ríkisendurskoðunar, hefur stjórn Þjóðmenningarhússins jafnframt lýst því yfir, að samþykkt er hún gerði, um greiðslu eftirvinnu til yðar, hafi byggst á röngum upplýsingum frá yður.

Með vísan til framangreindrar greinargerðar Ríkisendurskoðunar og þeirra athugsemda sem stofnunin gerir varðandi embættisfærslu yðar og yfirlýsingar stjórnar Þjóðmenningarhússins um upplýsingagjöf yðar til hennar, er yður hér með veitt lausn frá embætti um stundarsakir skv. 3. mgr. 26. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Ákvörðun þessi er hér með birt yður og öðlast þegar gildi.

Davíð Oddsson, Ólafur Davíðsson.``

Rétt er að taka fram að Sveinn Einarsson, fyrrverandi þjóðleikhússtjóri, hefur verið settur um stundarsakir til að gegna embætti forstöðumanns Þjóðmenningarhússins.

Menn verða að átta sig á því þegar þeir fjalla um þessi atriði, ég tala nú ekki um opinberlega, að það er nauðsynlegt að átta sig á, eins og hæstv. utanrrh. hefur bent á, að þessi mál eru afar viðkvæm. Þó að menn geti verið reiðir tilteknum starfsmönnum þá eiga þeir sinn rétt og eiga rétt á að bera hönd fyrir höfuð sér. Þess þurfa menn að gæta, ekki síst hér í þessum þingsal, að slíkir menn geta ekki gert það hér. Jafnframt er nauðsynlegt að menn átti sig á því að bréf sem sent er til forstöðumanns um leið og Ríkisendurskoðunarskýrslan kemur getur aldrei verið áminningarbréf samkvæmt stjórnsýslulögum. Það þarf allt annað og fleira að koma til. Til eru tvenns konar aðferðir. Annars vegar má veita mönnum lausn um stundarsakir fyrir minni brot. Þá þarf áminning að liggja fyrir. Hins vegar er hægt að setja menn til hliðar um stundarsakir fyrir meiri háttar brot. Þá þarf formleg áminning ekki að liggja fyrir. Það er gert í þessu tilviki með vísun til þeirra raka sem ég hef hér flutt.