Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 18:40:46 (5036)

2002-02-25 18:40:46# 127. lþ. 81.15 fundur 520. mál: #A Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur# (gjaldtökuheimildir og náttúrustofur) frv., EKG
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[18:40]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Best er að gera þá játningu strax að ég hef frá upphafi haft talsverðar efasemdir um að mikil þörf sé á að gera verulegar breytingar á lögum sem varða starfsemi náttúrustofanna í landinu. Ástæðan er nú mjög einföld og á rætur að rekja til hinnar íhaldssömu grundvallarsjónarmiða minna sem eru þau að á því sem vel hefur reynst er ekki ástæða til að gera miklar breytingar.

Virðulegi forseti. Þannig er málum háttað að starfsemi náttúrustofanna út um landið hefur mjög víða gengið mjög vel. Þeim hefur tekist að byggja sig upp sem alvörurannsókna- og vísindastofur sem hafa tekið virkan þátt í alls konar rannsóknastarfi úti um landið, gagnstætt því sem maður hefur séð víða annars staðar gerast. Þess vegna hef ég, virðulegi forseti, haft mínar efasemdir um að það væri mjög knýjandi nauðsyn á því að gera miklar breytingar á starfsumhverfi náttúrustofanna, vegna þess að ég hef einfaldlega haft af því beyg, talið að það yrði til þess að opna á einhverjar hugmyndir sem lytu að því að auka miðstýringu á þessum sviðum eins og svo mörgum öðrum í okkar þjóðfélagi.

Ég skil það hins vegar svo sem kom fram í máli hæstv. ráðherra að af hennar hálfu sé áhugi á því að auka og styrkja starfsemi náttúrustofanna. Það er gott ef svo er. Náttúrustofurnar hafa m.a. verið að byggjast upp á þeim grundvelli að þær hafa sinnt verkefnum sem eru í næsta nágrenni. Ég tek dæmi að náttúrustofa Vestfjarða hefur sérhæft sig í rannsóknum á náttúrufari Hornstranda. Náttúrustofan fyrir austan, á Austfjörðum, hefur sérstaklega sinnt hreindýrarannsóknum eftir því sem ég hef skilið. Auðvitað er þetta allt eins og það á að vera og er eðlilegt að svo sé. Við fáum mjög mikið af þessum sas-mönnum, sérfræðingum að sunnan eins og við þekkjum, sem koma í mýflugumynd á bílaleigubílunum, styrkja ferðaþjónustuna og fara svo suður og vinna úr rannsóknarverkefnum sínum. Hins vegar hefur það ekki verið svo með náttúrustofurnar. Þar hafa menn verið að vinna að þessu í næsta nágrenni við vettvang sinn og þar hefur að mínu mati tekist prýðilega vel til.

Ég veit, virðulegi forseti, og þess vegna tel ég nauðsynlegt að það komi fram, að meðal margra starfsmanna náttúrustofanna hefur hreiðrað um sig ákveðinn ótti við þetta skref sem verið er að stíga með því að klippa alveg á tengslin við ríkisvaldið. Óttinn hefur stafað af því að menn hafa haft uppi a.m.k. varnaðarorð í ljósi þess að breytingin kynni að leiða til þess að verkefni sem ríkisvaldið legði náttúrustofunum til mundu hverfa. Það er augljóst að ef ekki er tryggt með einhverjum hætti að ríkisvaldið sjái til þess að þessi verkefni verði áfram veitt til náttúrustofanna, þá verða þær náttúrlega illilega halaklipptar og veikari en áður.

Í 4. gr. frv. er kveðið á um verkefni náttúrustofanna. Þar er sagt:

,,Helstu hlutverk náttúrustofu eru:``

Það gefur út af fyrir sig til kynna að náttúrustofan hafi síðan til viðbótarmöguleika á að afla sér annarra verkefna. Engu að síður er þetta nokkuð óvenjulegur texti í lögum, þ.e. að talað sé um helstu hlutverkin. Ég held að það sé ástæða fyrir umhvn. sem tekur þetta mál fyrir að skoða betur hvort hægt sé að styrkja þessa starfsemi enn frekar með því að gauka að náttúrustofunum frekari verkefnum sem hægt er að vinna þarna. Ég tel einfaldlega að reynslan hafi sýnt á undanförnum árum að fullt tilefni er til þess að auka starfsemi náttúrustofanna.

Ég fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. ráðherra að hún muni beita sér fyrir því á næsta fjárlagaári að framlög til náttúrustofanna verði aukin. Mér hefur fundist náttúrustofurnar vera dálítið munaðarlausar, satt að segja, í þessu mikla kerfi öllu saman. Það hefur t.d. vakið athygli mína að sérstök framlög bæði til náttúrustofa fyrir vestan og austan hafa orðið að koma í gegnum fjárlaganefndina á hverju hausti. Það hefur verið afrakstur af dálítilli baráttu einstakra þingmanna og síðan, eins og stundum vill verða, lent utan rammans þegar nýtt fjárlagafrv. hefur komið fram. Það hefur í mínum huga valdið mér a.m.k. miklum vonbrigðum því ég held að full ástæða sé til þess að styðja miklu betur við starfsemi þessara stofa. Þær hafa sýnt að þær hafa burði til þess að sinna verkefnum sínum og þær eru mjög mikilvægar á þeim svæðum þar sem þær hafa starfað.

Vaxandi áhugi á náttúruvernd og vaxandi kröfur um að menn fari gætilega við undirbúning verkframkvæmda, t.d. hjá Vegagerðinni, hafa orðið til þess að náttúrustofurnar hafa fengið æ meira og aukið hlutverk. Það er mikilvægt að svo verði áfram. Einmitt af þeim ástæðum hafa margir af forsvarsmönnum náttúrustofanna, starfsmönnum náttúrustofanna og stjórnarmönnum náttúrustofanna haft nokkrar áhyggjur af því að klippt yrði á þessi tengsl með þeirri ákvörðun að færa þessi verkefni frá ríkisvaldinu.

Virðulegi forseti. Út af fyrir sig þarf ég ekkert að halda langa ræðu um þessi mál. Ég vildi bara að þetta kæmi strax fram við 1. umr. þannig að nefndin sem fær málið til meðhöndunar geti a.m.k. farið yfir þessi álitamál og skoðað þau gagnrýnum huga með því að kalla eftir upplýsingum frá náttúrustofunum í landinu.