Náttúruvernd

Mánudaginn 25. febrúar 2002, kl. 19:09:28 (5042)

2002-02-25 19:09:28# 127. lþ. 81.16 fundur 200. mál: #A náttúruvernd# (gróðurvinjar á hálendinu) frv., Flm. ÖS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 127. lþ.

[19:09]

Flm. (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Fyrir þremur árum samþykkti hið háa Alþingi lög um náttúruvernd, nr. 44/1999. Í 37. gr. þeirra laga er að finna ákvæði um að ákveðnar landslagsgerðir sem þar eru tilteknar njóti sérstakrar verndar. Þetta eru eldvörp, gervigígar, eldhraun, stöðuvötn og tjarnir sem eru stærri en þúsund fermetrar, mýrar og flóar, fossar, hverir og heitar uppsprettur, hrúður og hrúðurbreiður og sjávarfitjar og leirur. Með þessu frv. sem ég flyt ásamt nokkrum hv. þm. Samfylkingarinnar er lagt til að við þessar landslagsgerðir sem njóta sérstakrar verndar verði bætt gróðurvinjum á hálendi Íslands.

Ég tek fram, herra forseti, að á 10. náttúruverndarþingi var samþykkt áskorun um að gróðurvinjum á hálendinu yrði bætt við þessa upptalningu, þannig að ljóst verði að í framtíðinni njóti þær þeirrar verndar sem 37. gr. kveður á um.

Herra forseti. Miðhálendið er að mestu leyti auðnir og gróður þekur einungis örlítinn hluta. Þarna sjáum við ákveðnar andstæður, raunar séríslenskar andstæður sem eiga hvergi sinn líka, grænan gróður við uppsprettulindir í miðri auðninni, andspænis berangri þar sem ekkert kvikt lifir nema fuglinn fljúgandi. Af þeim sjónarhóli má segja að þessar gróðurvinjar séu ómetanleg auðlind vegna þess að þær eiga þátt í því að skapa þær miklu andstæður sem búa yfir segulmögnuðu aðdráttarafli fyrir ferðamenn, bæði innlenda, þó ekki síður erlenda í ríkum mæli. Þó má segja, herra forseti, að dýrmæti gróðurvinjanna helgist miklu fremur af því að í vistfræðilegu tilliti njóta þær algerrar sérstöðu. Þær eiga sér engar hliðstæðu í öðrum löndum og það er helst að bera megi þær saman við vinjar í þurrum og heitum eyðimörkum þó að loftslag og lífríki sé að sjálfsögðu gerólíkt. Gróðurvinjarnar eru eina athvarf fjölmargra tegunda plantna og dýra sem dafna ekki í auðninni umhverfis. Það gildir ekki síst um fugla, enda hafa sumar gróðurvinjarnar alþjóðlegt gildi sökum þess mikilvægis sem þær búa yfir fyrir ýmsar tegundir.

Það er þó einkum eitt sem ég vildi leggja sérstaka áherslu á, herra forseti, og það er að gróðurvinjarnar eru ómetanleg uppspretta fræja, þær eru eins konar fræbanki og eru staðsettar víðsvegar um auðnina. Þegar umhverfið breytist og verður hagstæðara gróðri á hálendinu í grennd við slíkar vinjar, t.d. vegna breytinga á lofthita eða vegna minnkandi beitarálags, sem við sjáum góðu heilli víða í dag, þá verða þessir fræbankar gróðurvinjanna ómetanlegir við uppgræðslu landsins.

Ég tel, herra forseti, að ekki síst í þessu felist framtíðarhlutverk hálendisvinjanna og má segja að í því hlutverki þeirra felist líka mikilvægasta röksemdin fyrir því að vernda þær sérstaklega. Þess vegna höfum við lagt fram þetta frv., herra forseti, og ég vænti þess að að lokinni þessari umræðu muni hv. umhvn. fjalla um frv. af mikilli mildi og skilja þær röksemdir sem þar eru lagðar fram --- þó ég fari ekki ítarlegar í þær í þessari ræðu --- og sendi það aftur hingað til hagkvæmrar afgreiðslu.