Yfirlýsing frá þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 13:32:47 (5043)

2002-02-26 13:32:47# 127. lþ. 82.91 fundur 360#B yfirlýsing frá þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[13:32]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs um störf þingsins til að gera grein fyrir samþykkt þingflokks Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs vegna kröfu um leynd á upplýsingum um raforkuverð frá fyrirhugaðri Kárahnjúkavirkjun.

Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hefur rætt kröfu Landsvirkjunar um að leynt verði farið með upplýsingar um raforkuverð frá fyrirhugaðri Kárahnjúkavirkjun. Þingflokkurinn hafnar að taka við slíkum upplýsingum undir þeim formerkjum og mun gera allt sem í hans valdi stendur til að knýja á um að upplýsingarnar verði gerðar opinberar. Almennir orkunotendur og allur almenningur á skýlausa kröfu á þessum upplýsingum sem og þingmenn sem eiga að taka afstöðu til málsins á þingi.

Fulltrúi þingflokksins í iðnn. mun að sjálfsögðu virða trúnað varðandi upplýsingar sem fram hafa komið í nefndinni. Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs mun á næstunni kanna og eftir atvikum láta reyna á mögulegar leiðir til að svipta leynd af þessum upplýsingum.