Boðað frumvarp um stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 13:36:13 (5045)

2002-02-26 13:36:13# 127. lþ. 82.94 fundur 363#B boðað frumvarp um stjórn fiskveiða# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[13:36]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég tek undir þau orð málshefjanda, hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, að framkoma ríkisstjórnarinnar í þessu máli er með hreinum og klárum endemum. Síðbúnir tilburðir til að efna sáttargjörðina miklu sem lofað var í þessu máli fyrir síðustu kosningar, svo að vægt sé til orða tekið, eiga þá væntanlega að heita fólgnir í því frv. sem nú er boðað að verði hent inn á þingið.

Um mánaðar skeið hefur legið fyrir þinginu tillaga stjórnarandstöðunnar, tilboð af hálfu stjórnarandstöðunnar um frekari vinnu, frekari tilraunir til að reyna að sætta sjónarmið í þessu máli. Það hefur einskis verið metið af hálfu hæstv. ríkisstjórnar, ekki tekið undir það einu orði og tillagan reyndar ekki enn komin til umræðu. Ef marka má fréttatilkynningu frá hæstv. sjútvrh. er nú ætlunin að kasta stríðshanska inn á þingið í þessu máli þar sem í aðalatriðum er tillaga fulltrúa Sjálfstfl. og embættismanna í svonefndri endurskoðunarnefnd. Það er það sem þar er á ferðinni.

Auðvitað má segja, herra forseti, að þetta veki spurningar um það hvort Sjálfstfl. meti það nú svo að það sé honum hagstæðara að reyna að beina umræðunni yfir í deilur um sjávarútvegsmál og frá þeim spillingarmálum sem mjög eru til umræðu þessa dagana og tengjast flokknum. Kemur þess vegna allt í einu þessi stríðshanski flatur inn í þingið, þetta frv. hæstv. sjútvrh. sem allir vita að engin sátt er um, hvorki inni á þingi né úti í þjóðfélaginu? Það er allt logandi í ófriði í kringum þessi mál og í raun og veru er það mjög áleitin spurning, herra forseti, hvað ríkisstjórninni gengur til, eða hæstv. sjútvrh. og Sjálfstfl., að standa svona að verki.