Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 15:46:47 (5106)

2002-02-26 15:46:47# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[15:46]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt, það á ekki að vera að snúa út úr orðum manna og ég bið hv. þm. velvirðingar ef ég hef misheyrt eða misskilið það sem hann sagði um menningarhúsin. Mér fannst hv. þm. vera sérstaklega að hrósa þeim áætlunum en nú segir hv. þm. að það sem hann vilji sé að staðið verði við þær og þeim hrint í framkvæmd og það er gott, þá erum við sammála. Það sem ég hef einmitt gagnrýnt er að það skuli ekki hafa verið gert og það mál hafi lent í þeirri óskaplegu útideyfu sem raun ber vitni. Það kemur mér reyndar ekki á óvart að hv. þm. er þeirrar skoðunar í þessu tilviki því að málið heyrir undir ráðherra Sjálfstfl. en ekki Framsfl. og við höfum nokkuð orðið varir við það hér að viðhorf manna í stjórnarflokkunum einkennast æ meira af því hvort þeir eru að leggja flokksbræðrum sínum á ráðherrastóli lið eða ekki. Jafnvel vottar fyrir þó nokkurri gagnrýni á framgöngu ráðherra samstarfsflokksins.

Mér er vel kunnugt að nám er á háskólastigi víðar en á Akureyri. Það þekki ég ágætlega og ég er stuðningsmaður þess að það sé eflt. Hins vegar er held ég ljóst að í efnislegum skilningi verða væntanlega ekki byggðir upp margir stórir deildaskiptir háskólar og þar snýst þetta um að efla Háskólann á Akureyri og byggja út frá honum fjarkennslu og útstöðvar o.s.frv.