Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 15:48:10 (5107)

2002-02-26 15:48:10# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[15:48]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Í þessari umræðu hefur margt borið á góma. Til að rifja upp gamla tíma og átta okkur á því hvar við erum stödd í umræðunni og hvaða árangri við höfum náð er rétt að byrja á að vitna í tillögur og greinargerð byggðanefndar frá árinu 1991 en þar sagði í stefnumótun sem nefnd vann fyrir forsrn., með leyfi forseta:

,,Byggðastefna sem byggir einvörðungu á að viðhalda hefðbundnum landbúnaði og sjávarútvegi á landsbyggðinni verður ekki árangursrík. Kjarni nauðsynlegrar stefnubreytingar er að samhliða vaxandi fjölbreytni og betri nýtingu á möguleikum í hinum hefðbundnu atvinnuvegum verður að hlúa sérstaklega að hinum almennu vaxtargreinum atvinnulífsins --- iðnaði og þjónustu.``

Þetta var sagt þá.

Ég held að reynslan hafi sýnt okkur að sú stefnumótun sem raunverulega hefur verið í framkvæmd og hefur veikt hinar hefðbundnu atvinnugreinar, sjávarútveg og landbúnað, í dreifðum byggðum landsins hafi einmitt orðið til þess að við erum eiginlega nákvæmlega á sama stað og lagt var upp með í þessari stefnumótun fyrir rúmlega tíu árum.

Það segir hér einnig, með leyfi forseta:

,,Ríkisvaldið hefur bein áhrif á atvinnu- og byggðaþróun með staðarvali stórfyrirtækja, tilhögun opinberrar þjónustu og ekki síst með stjórn landbúnaðar og sjávarútvegs.``

Ég ætla að leyfa mér að fullyrða í upphafi máls míns að það er alröng stefna hjá okkur í byggðamálum að hafa slíkt stjórnkerfi varðandi fiskveiðarnar, svo ég taki dæmi, eða landbúnaðinn, sem veikir hinar dreifðu byggðir og veiki bakland hinna dreifðu byggða. Það er alröng stefna að mínu viti. Það að við skyldum ekki hafa tekið þann pól í hæðina fyrir allnokkru, einum til tveimur áratugum, að tryggja það að byggðirnar héldu réttindum sínum til sjós og lands hefur reynst vera alröng stefna. Og allan þann tíma síðan þetta var skrifað fyrir rúmlega tíu árum hefur byggðin verið að veikjast, sérstaklega í hinum dreifðu byggðum landsins.

Byggðirnar við Breiðafjörð hafa verið að veikjast, þó misjafnlega, menn eru misjafnlega settir á Snæfellsnesinu. Allar byggðir Vestfjarða hafa verið að veikjast sem og byggðir á Norðvesturlandi, á Norðausturlandi og víða á Austfjörðum, þó að það sé vissulega nokkuð misjafnt eftir því hvernig menn eru settir í aflaheimildum og þá einkanlega í uppsjávarfiski. Byggðir eins og Sandgerði hafa verið að veikjast --- góður útgerðarstaður, Vestmannaeyjar, sem eru staðsettar á einhverjum bestu fiskimiðum við Ísland, og þannig mætti lengi telja.

Ekki er hægt að færa fyrir því rök að þessar byggðir hafi verið að veikjast vegna þess að þær liggi svo illa að landkostum, og þegar ég tala um landkosti er ég jafnt að tala um fiskimiðin úti fyrir ströndinni og þá möguleika sem byggðirnar hafa til að sækja sér fisk í sjó og búa til atvinnu í kringum útgerð og fiskvinnslu sem vissulega hefur verið að taka breytingum á undanförnum árum en er þó ein mikilvægasta stoðin undir hinar dreifðu byggðir landsins og væri enn mikilvægari en hún er sums staðar orðin í dag ef við hefðum tryggt að strandveiðiréttur byggðanna hefði haldið velli. Það var því miður ekki gert og af því súpum við seyðið í mörgum hinna minni sjávarbyggða landsins í dag. Ég hef oft sagt það áður í þessum ræðustól og get endurtekið það að það voru mikil mistök hjá ríkisstjórn árið 1990 að hlusta ekki á þær aðvaranir sem þá voru settar fram varðandi það hvað mundi fylgja hinu óhefta framsali, hvernig það gæti þróast, hvernig það mundi búa til missætti milli landshluta og fólks innbyrðis í hinum dreifðu byggðum landsins annars vegar og stærri byggðakjörnunum hins vegar, og hvernig það mundi vega að hinum minni sjávarbyggðum landsins. Það hefur akkúrat gengið eftir og það er eins og menn séu ekki enn þá búnir að átta sig á því að miklu auðveldara er að efla byggð í landinu með því að tryggja að byggðirnar hafi þá undirstöðu sem þær hafa byggt á um langa tíð og gætu byggt á enn þá vegna staðhátta sinna og kosta ef við hefðum ekki komið málum þannig fyrir að tilflutningur aflaheimilda hefur verið algjörlega tilviljanakenndur. Við höfum aldrei getað séð það fyrir hvaða byggð yrði fyrir skakkaföllum á hverju ári fyrir sig eða hvenær það mundi gerast.

Þess vegna standa svo margar hinni minni dreifðu sjávarbyggða veikt, standa mjög höllum fæti í því kerfi sem byggt hefur upp stóratvinnurekstur á sumum svæðum með samþjöppun aflaheimilda inn á sum svæði, m.a. Akureyri.

Jafnframt er ljóst að hin stærri byggðarlög á suðvesturhorninu og á Eyjafjarðarsvæðinu draga auðvitað til sín fólk af landsbyggðinni almennt en þau draga líka til sín að þjónusta er sótt inn í þessa byggðakjarna, sérstaklega af þeim svæðum sem næst liggja. Menn hafa iðulega nefnt hér í umræðum að t.d. Stór-Reykjavíkursvæðið sé smátt og smátt að stækka og nái nú norður undir Akranes og jafnvel upp í Borgarfjörð og austur undir Vík í Mýrdal. Þannig megi hugsa til framtíðar að þetta sé nokkurn veginn eins og eitt búsetusvæði þar sem menn eigi auðvelt með að nálgast þjónustuna og nálgast þá hluti sem fólk vill nota sér með því að ferðast að þeim stöðum sem bestu þjónustuna veita.

Ég vildi vekja athygli á þessu í máli mínu og draga alveg sérstaklega fram að að mínu mati verður að tryggja bakland byggðanna, bakland byggðakjarnanna. Ég tel að stuðla eigi að því að byggja upp byggðakjarna í hverjum landshluta en það má ekki gera á kostnað minni byggðarlaga í kring eða á kostnað landbúnaðarins. Það verður að tryggja að byggðirnar hafi bakland ef byggðastefnan hér á landi á yfirleitt að standa undir nafni.