Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 17:44:31 (5156)

2002-02-26 17:44:31# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[17:44]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég skal reyna að svara þessu. Ég held að aðalástæðan sé sú að í viðhorfi stjórnsýslunnar, í viðhorfinu eins og hefur verið mörg ár og marga áratugi, þá sé Reykjavík nafli Íslands og allt sem gert er fyrir utan Reykjavík sé þá einhver ölmusa og einhver hjálp. En þessi hugsunarháttur er stórhættulegur vegna þess að mjög margt, eiginlega allt sem við getum gert til þess að styrkja byggðir landsins, getur átt sér fullkomlega eðlilegar og heilbrigðar efnahagslegar forsendur þó það sé ekki í Reykjavík. Við þetta eigum við að stríða og þess vegna þurfum við svo mjög mikið að vanda okkur og átta okkur á því að öll okkar viðleitni fram til þessa hefur ekki borið árangur. Við höfum farið aftur á bak en ekki áfram. Þess vegna þurfum við ný og skarpari vinnubrögð til að reyna að ná árangri.