Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 20:18:53 (5202)

2002-02-26 20:18:53# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., KHG
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[20:18]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég hef verið fjarverandi frá umræðunni í dag vegna þess að ég var búinn að ráðstafa mér í kjördæminu í dag og í gær. En ég átti þess kost þegar ég kom í bæinn áðan að blanda mér í hana þar sem ég sá að henni var ekki lokið. Mér heyrist reyndar að nokkuð sé ósagt miðað við það sem fram kom í ræðum þingmanna, t.d. hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar sem ég tel að hafi oft flutt betri ræður en þá sem ég heyrði brot úr. (Gripið fram í: Það er rétt.)

Ég vil segja um þessa tillögu að það er ljóst að hér er afar stórt mál á ferðinni sem snertir marga. Því er eðlilegt að um það séu miklar meiningar, sérstaklega í ljósi þess að íbúaþróun innan lands hefur verið í afar miklu ójafnvægi og hefur því komið illa við mjög marga, bæði þá sem búa á landsvæðum þar sem fólksfækkun hefur verið nokkuð viðvarandi en kannski ekki síður, þó að mönnum sé það meira hulið í augnablikinu, komið illa við þá þar sem fjölgun er mjög hröð því að það hefur ýmsar neikvæðar hliðarverkanir.

Herra forseti. Ég er á þeirri skoðun að stjórnvöld eigi að hafa ákveðna stefnu sem kalla megi byggðastefnu og snúist fyrst og fremst um tvennt, þ.e. annars vegar um hlut opinberra aðila í nýsköpun og atvinnuuppbyggingu og hins vegar um þátttöku og hlutverk stjórnvalda til að jafna búsetuskilyrði um landið þannig að röskunin verði minni en nú er þannig að af þeim sökum verði síður ástæða fyrir fólk til að færa sig á milli landshluta til að sækja opinbera þjónustu eða menntun. Ég tel að slík stefna verði að ná yfir landið allt en ekki bara landsbyggðina eins og verið hefur.

Ég held að það fyrsta sem við þurfum að gera sé að mynda heildstæða stefnu fyrir landið allt. Í því felst að stjórnvöld þurfa líka að skilgreina og skýra hvað þau ætlist fyrir með höfuðborgarsvæðið, hvaða hlutverk þau ætli höfuðborginni og hvaða hlut hið opinbera ætli sér í þeim þætti.

Ég held að það sem að hluta til hafi skapað neikvæða afstöðu til byggðaumræðu af hálfu þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu sé að menn líta svo á að byggðastefna sem nái aðeins yfir landsvæðið utan höfuðborgarsvæðisins sé einhvers konar stefna gegn því og líta svo á að hið opinbera sé að beita sér með ýmsum aðgerðum, sem á hverjum tíma eru taldar þar upp, gegn þeim sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Mér finnst stundum að viðbrögð fólks á þessu svæði mótist af því að það skilur stefnumörkunina þannig.

Þess vegna held ég að til að fyrirbyggja misskilning sé nauðsynlegt að stefnan nái yfir landið allt, líka til þess að draga inn í umræðuna það sem hið opinbera er að gera í dag og hefur gert mjög lengi til þess að styrkja höfuðborgarsvæðið. Og það er býsna margt. Niðurstaðan af aðgerðum hins opinbera hefur gríðarlega mikil áhrif á búsetuþróun og vegna þess að hið opinbera hefur beitt sér mjög mikið á höfuðborgarsvæðinu um marga áratugi þá hefur íbúaþróunin þar verið langsamlega hagstæðust miðað við landið í heild.

Ég er því sammála þeim viðhorfum sem ég hef heyrt á undanförnum vikum að það þurfi að marka stefnu fyrir höfuðborgarsvæðið líka. Ég tel að við eigum að gera slíkt. Ég held hins vegar, og það finnst mér jákvætt í þessu plaggi, að menn deili ekki lengur um að aðgerðir hins opinbera hafa áhrif. Á þeim tíma sem ég hef tekið þátt í stjórnmálum hafa þau viðhorf löngum verið uppi af hálfu ýmissa í stjórnmálunum að opinber afskipti eða opinber stefna skipti engu máli vegna þess að þróunin væri óstöðvandi og enginn fengi rönd reist við henni. Nú sýnist mér á þeim skjölum sem hér liggja fyrir og umræðunni sem farið hefur fram að engar raddir séu uppi um það lengur að þetta sé svona, heldur tala menn þvert á móti út frá þeim veruleika að aðgerðir stjórnvalda skipti máli og geti breytt þróun. Ég tel það jákvæða breytingu á hinni pólitísku umræðu um byggðamál á undanförnum þremur árum.

Ég held t.d. að áherslurnar sem lagðar eru upp í skjali ríkisstjórnarinnar um að styrkja Eyjafjarðarsvæðið endurspegli þá trú stjórnmálamanna að hægt sé að breyta þróuninni á þann veg sem þar er lýst, úr 20 þúsund manna héraði í 50 þúsund manna hérað á tilteknu árabili. Í því felst þá líka að þeir sem hafa þessa trú gera sér grein fyrir því að hægt er að stýra íbúaþróun á öðrum svæðum landsins og ná árangri í samræmi við þau markmið sem þeir setja sér og í samræmi við þær aðgerðir sem þeir beita. Ég tel að stefna sem við eigum að hafa, þ.e. hið opinbera, eigi að ná yfir landið allt, ekki bara landsbyggðina og ekki bara höfuðborgarsvæðið og ekki bara eitt svæði á landsbyggðinni. Stefnan á að lýsa viðhorfum hins opinbera og stefnu til allra svæða landsins.

Ég hef talað fyrir því að menn drægju upp þessa mynd í mörkun stefnu í byggðamálum. Ég bendi á að fram hafa komið áherslur í þessa veru mjög víða, bæði innan Sambands íslenskra sveitarfélaga og innan verkefnisstjórnar um mótun nýrrar byggðastefnu og undirhópa sem störfuðu á vegum þeirrar verkefnisstjórnar. Þessi sjónarmið hafa því mjög víða verið sett fram og ég tel að mjög vaxandi stuðningur sé við þau viðhorf að menn eigi að hafa heildstæða stefnu sem nái yfir landið allt. Ég hef ekki heyrt á ráðherrum ríkisstjórnarinnar að þeir andmæli þessum sjónarmiðum eða tali beinlínis gegn þeim. Ég tel að í ríkisstjórninni hljóti að vera samherjar mínir varðandi þau viðhorf sem ég lýsi.

En það er alveg ljóst að skjalið er ekkert heilagt og þolir vel að það megi bæta og því breyta. Ég tel alveg fullvíst að þingið muni athuga það og gera á því breytingar eftir atvikum.

Herra forseti. Ég vildi aðeins láta í ljós með nokkrum orðum miðað við þennan skamma ræðutíma almenn viðhorf mín til málsins. En ég vil líka segja að ég tel að menn geti með markvissum aðgerðum náð verulegum árangri og það er kannski meginlærdómurinn sem við getum dregið af þeirri umræðu sem fram hefur farið að undanförnu.