Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 20:28:36 (5204)

2002-02-26 20:28:36# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[20:28]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ummælin sem hv. þm. vitnar hér til að hafi fallið um að Byggðastofnun sé að liðast í sundur séu nú ómakleg. Ég hef þær fréttir úr umræðunni að tveir hv. stjórnarmenn í Byggðastofnun sem eru báðir þingmenn Sjálfstfl., hafi borið til baka allar ávirðingar af því tagi og því skyldu.

Ég vil segja um nýsköpunarmiðstöðina að í gildandi lögum um Byggðastofnun sem eru frá því í desember 1999 er stofnuninni falið það hlutverk að hafa forgöngu um nýsköpun í atvinnulífinu og ætlað fé í því skyni þannig að það að ætla sér að koma á fót sérstakri nýsköpunarmiðstöð á Akureyri með þetta verkefni og hugsanleg verkefni atvinnuþróunarfélaganna er að mínu viti ekki skref fram á við. Ég tel að það eigi auðvitað að efla þá stofnun sem flutt var út á land til þess að sinna þeim verkefnum sem lög kveða á um að hún eigi að gera.