Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 20:29:43 (5205)

2002-02-26 20:29:43# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[20:29]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir að hluta það sem hv. þm. sagði hér um byggðastefnuna sem þyrfti að ná til landsins alls. Ég held að það sé rétt sem hv. þm. hefur nokkrum sinnum bent á að það hefur verið rekin mjög öflug byggðastefna á höfuðborgarsvæðinu sem hafi náð ótrúlega miklum árangri. Ég held að það séu áherslur sem eigi fullt erindi inn í þessa umræðu.

Herra forseti. Hvað varðar umræðuna um nýsköpunarmiðstöðina og ummæli hv. þm. um hana þá hlýt ég að spyrja hv. þm. hvort hann hafi, eins og ýmsir hv. þm. Sjálfstfl. sem hér hafa talað í dag, haft fyrirvara varðandi þessa þáltill. þegar hún var afgreidd í þingflokknum. Það kom fram hjá nokkuð mörgum hv. þm. Sjálfstfl. að þeir hafa fyrirvara, að vísu á mismunandi stigi, sumir mikinn og sumir algjöran. En ég held að sé nauðsynlegt vegna þeirrar gagnrýni sem hér kom fram í máli hv. þm. að spyrja hvort það sama hafi gerst í þingflokki Framsfl., að hann og jafnvel fleiri hv. þm. Framsfl. hafi fyrirvara gagnvart þessari þáltill.