Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 20:34:36 (5209)

2002-02-26 20:34:36# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[20:34]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni að kannski erum við þess vegna að tala um þessa áætlun í dag, og af því að þingmaðurinn var ekki við umræðuna vil ég segja að við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum lýst okkur tilbúin til að vinna að þessari áætlun af fullum heilindum, á okkar forsendum að vísu, og lýsum ánægju með ýmislegt sem kemur fram í þessu plaggi. En ég lýsti því í ræðu minni og stend við það og fékk stuðning hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, varaformanns fjárln., að ekki þýðir að setja hluti bara á blað, það verður að tala með peningum og það skýrist og framkallast í gerð fjárlaga hverju sinni. Þess vegna er ákaflega mikilvægt að menn marki sér stefnu og eitthvað sé í hendi með hvað á að gera sem endurspeglast þá í því hvernig menn standa að fjárlagagerð, og þá við næstu fjárlagagerð.