Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 20:40:08 (5214)

2002-02-26 20:40:08# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[20:40]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Spurningunum um Kárahnjúkavirkjun og álver í Reyðarfirði er fljótsvarað. Fyrir liggja trúverðugar athuganir sem leiða í ljós að ef ráðist verður í álverksmiðju á Reyðarfirði með tilheyrandi virkjun við Kárahnjúka má vænta þess að íbúafjöldi á Miðausturlandi verði í lok framkvæmdatímans 10 þús. manns en ef ekkert verður gert má vænta þess að íbúafjöldinn verði 7 þús. Þetta er því aðgerð sem skilar miklum árangri í þessu skyni. (ÖJ: Það má gera eitthvað annað en þetta.)

Ég vil svara hv. þm. um fiskveiðimálið. Ég tel að þróun í sjávarútvegi hafi haft veruleg áhrif á þróun byggðar á Íslandi, og hluti af þeirri þróun hefur verið stjórn fiskveiða þótt hún hafi ekki verið eina ástæðan, t.d. hefur þessi mikla samþjöppun í sjávarútvegi síðan 1997 leikið ýmsar byggðir mjög grátt. Það er algjörlega kristaltært. Og ég tel að við einkavæðingu ríkisfyrirtækja eins og Landssíma verði menn að gæta að því að sú aðgerð dragi ekki úr uppbyggingu og jöfnun á þjónustu.