Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 21:43:01 (5237)

2002-02-26 21:43:01# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[21:43]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Þetta er náttúrlega svo ómálefnalegt að það er varla svaravert. Við erum búin að vera að reyna að greina hér frá dæmum og koma með rök í okkar máli. Staðreyndin er sú að um áratuga skeið var póstþjónustan niðurgreidd af Símanum. Þau voru í sambýli í einu fyrirtæki. Nú hefur verið greint þarna á milli og Pósturinn á í erfiðleikum af þeim sökum. Það er alveg rétt að það hafa orðið ágætar og miklar tækniframfarir í fjarskiptum og í póstþjónustunni líka og þeim ber að fagna. En þetta er staðreynd málsins sem kom hér m.a. rækilega fram í umræðu um póstþjónustuna í gær. Þar kom fram að póstþjónustan veiti núna aðeins 60% af þeirri þjónustu sem hún veitti fyrir tveimur árum. Þetta eru bara staðreyndir. Við erum að reyna að bera hér á borð staðreyndir og efna til einhverrar vitlegrar og uppbyggilegrar umræðu en fáum síðan þessi undarlegu útúrsnúningasvör frá hæstv. ráðherra sem síðan ætlar að láta taka sig alvarlega í umræðu um stefnumótun í byggðamálum. Þetta er varla svaravert.