Stefna í byggðamálum 2002--2005

Þriðjudaginn 26. febrúar 2002, kl. 21:52:21 (5245)

2002-02-26 21:52:21# 127. lþ. 82.5 fundur 538. mál: #A stefna í byggðamálum 2002--2005# þál., KVM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 127. lþ.

[21:52]

Karl V. Matthíasson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. iðnrh. sá ástæðu til þess að nefna sérstaklega þátttöku þingmanna Vestfjarða í umræðunni um byggðamál áðan og vék að samkeppni (Gripið fram í.) okkar þar í millum. Það er kannski ýmislegt til í því --- eru ekki stjórnmálamenn oft í samkeppni? --- og sjálfsagt ekkert ljótt við það. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. iðnrh. sé í samkeppni við ýmsa og þannig gerast kaupin á eyrinni. Hitt held ég þó að liggi því frekar til grundvallar að við komum hér upp að við höfum áhyggjur af því hvernig komið er fyrir ýmsum byggðum á Vestfjörðum. Kvótinn hefur streymt þaðan burt og mannfjöldinn sömuleiðis. Og ástæðan fyrir því að maður segir ekki að ástandið sé hörmulegt á landsbyggðinni eða að þar vanti atvinnu er einfaldlega sú að fólkið hefur bara flutt í burtu. Þess vegna hefur ekki orðið atvinnuleysi.