Vandi heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 14:12:11 (5267)

2002-02-27 14:12:11# 127. lþ. 84.3 fundur 416. mál: #A vandi heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[14:12]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir hefur beint til mín þeirri spurningu hvernig ráðherra hyggist bregaðst við vanda heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Ég vil í upphafi geta þess að ég tel heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu mjög öfluga og jafnframt mikilvægan þátt í því grunnhlutverki sem heilsugæsla um allt land hefur samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu. Ég tel fyrirkomulag heilsugæslu hafa reynst okkur vel, bæði í þéttbýli og ekki síður í dreifbýli. Ég tel það grundvallaratriði og afar mikilvægt að við stöndum vörð um heildarskipulag heilsugæslunnar.

Á undanförnum árum hefur borið á auknum erfiðleikum við að komast að í heilsugæslunni og hafa ýmsar skýringar verið taldar liggja þar að baki. Liggur ljóst fyrir að aukin aðsókn í heilsugæslunni á þar stóran þátt að máli, einnig auknar kröfur um þjónustu utan hefðbundins vinnutíma. Breytingar á launaumhverfi heilsugæslulækna með úrskurði kjaranefndar 1998 hafa einnig verið nefndar sem hluti þessarar skýringar. Samhliða þessu hefur orðið veruleg fólksfjölgun á höfuðborgarsvæðinu sem skapar þörf fyrir enn frekari uppbyggingu heilbrigðisþjónustu í nýjustu hverfum höfuðborgarsvæðisins.

Ég hef fullan áhuga á því að áfram verði stutt af miklu afli við heilsugæsluna og henni gert kleift að sinna hlutverki sínu sem grunnþjónusta í heilbrigðiskerfi allra landsmanna. Í þessu sambandi vil ég minna á að fjöldi nýrra heilsugæslustöðva og viðbætur við fyrri stöðvar hafa risið á undanförnum árum. Má í þessu sambandi nefna heilsugæslustöð í Efstaleiti í Reykjavík, í Kópavogi, Mosfellsbæ, Garðabæ og Hafnarfirði og fyrir nokkrum dögum síðan tók til starfa ný heilsugæslustöð í Grafarvogshverfi í Reykjavík og mun hún bæta mjög úr brýnni þörf fyrir aukna þjónustu í þeim hluta borgarinnar. Þá hef ég leitað heimilda til þess að auglýsa eftir húsnæði fyrir nýja heilsugæslustöð í Salahverfi í Kópavogi og einnig er brýnt að bæta úr þörfum heilsugæslunnar í Voga- og Heimahverfi í Reykjavík og í Hafnarfirði, en á öllum þessum stöðum er mjög brýnt að bæta framboð í heilsugæsluþjónustu.

Í lok síðasta árs skipaði ég nefnd til að koma með tillögur um eflingu heilsugæslunnar í dreifbýli og þéttbýli. Vænti ég þess að niðurstöður þeirrar nefndar liggi fyrir núna á vormánuðum. Mér er fyllilega ljóst að margir þættir tengjast beint og óbeint starfsemi heilsugæslunnar, bæði innan hennar og í umhverfi hennar, svo sem starfsemi sérfræðinga, sjúkrahúsanna sem og aðrir þættir heilbrigðisþjónustunnar. Samstarf og samþætting allra þessara nauðsynlegu þátta er mjög mikilvæg. Nýliðun allra stétta innan heilsugæslunnar er mikilvæg og einnig hef ég lagt áherslu á að þau mál verði skoðuð sérstaklega.

Hluti af erfiðleikum heilsugæslunnar tengjast mönnun. Í þessu sambandi er mikilvægt að grunnmenntun heilbrigðisstétta, lækna sem hjúkrunarfræðinga, taki fullt tillit til þessarar grunnþjónustu heilbrigðiskerfisins sem okkur er jafnmikilvæg og öðrum þjóðum og að full sátt sé um hornstein þessarar þjónustu. Í þessu sambandi hefur nokkuð borið á umræðu um einkavæðingu. Ég hef áður lýst yfir þeirri skoðun minni að ég tel ekki koma til greina að bjóða upp á tvenns konar þjónustu fyrir íbúa landsins. Það sama gildir um höfuðborgarsvæðið. Ég tel hins vegar ekkert standa í vegi fyrir því að ýmiss konar rekstraraðferðir verði hafðar við líkt og er í dag. Það vill oft gleymast í umræðunni. Ég hef áhuga á því að við þá viðbót í heilsugæslunni sem ég hef áður nefnt verði fullt tillit tekið til allra rekstrarmöguleika.

Ég vil aftur ítreka að ég tel heilsugæsluna einn af mikilvægustu hornsteinum íslenskrar heilbrigðisþjónustu og ég hef fullan hug á því að styrkja hana eins og mögulegt er.

Herra forseti. Ég vona að þær upplýsingar sem ég hef reitt fram hér svari fyrirspurn þingmannsins að einhverju leyti.