Sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar

Miðvikudaginn 27. febrúar 2002, kl. 14:55:20 (5291)

2002-02-27 14:55:20# 127. lþ. 84.6 fundur 468. mál: #A sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 127. lþ.

[14:55]

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir hans ágætu svör og þeim sem hafa einnig tekið hér til máls. Það sem skiptir mestu máli í svörum hæstv. ráðherra er að hann telur eðlilegt að sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarar starfi á svipuðum grunni og þeir sem eru starfandi annars staðar og að þetta verði leiðrétt. Þetta þykir mér vera meginpunkturinn í umræðunni og ég fagna því, því að þetta er einmitt það sem sjúkraþjálfarar hafa verið að óska eftir og þetta er í rauninni það sem heilbrigðisþjónustulögin, þ.e. þetta nýja ákvæði sem sett var í lögin núna fyrir jól kveður á um, að ekki sé gert upp á milli rekstrarforma í heilbrigðisþjónustu.

En eins og kom fram í ræðum ýmissa hv. þm. og hæstv. ráðherra er yfirstandandi launadeila milli sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara og Tryggingastofnunar ríkisins. Þetta er launadeila sem varðar um 180 sjúkraþjálfara á 45 stofum sem veita tæplega 25 þúsund einstaklingum þjónustu, alls yfir 400 þúsund meðferðir á ári. Umfangið er því gríðarlegt. Eins og málin standa núna, næsta föstudag, er augljóst að það ástand sem hér hefur verið lýst mun leiða til þess að sjúklingum verður í auknum mæli beint til sjúkrahúsa og endurhæfingarstofnana og Tryggingastofnun mun áfram greiða meðferð sjúklinga sem leita til sjúkraþjálfara sem starfa á opinberum stofnunum, þó að þessir sjúkraþjálfarar hafi raunverulega ekki aðild að þeim samningum sem þeir starfa eftir. Ég vil því ítreka það, eins og kemur hér fram, að taxti sjúkraþjálfara gagnvart Tryggingastofnun hefur ekki fylgt eðlilegri launaþróun og verðlagsvísitölu á undanförnum árum og þeir hafa bent á að þeir hafa setið eftir, bæði gagnvart þeim sem eru á samningi hjá Tryggingastofnun og jafnframt starfsfélögum sínum inni á stofnunum.

Ég vil því hvetja hæstv. heilbrrh. til að beita sér fyrir því, sem ég veit að hann mun gera, að leysa þessa deilu.