Lögskráning sjómanna

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 11:46:14 (5344)

2002-02-28 11:46:14# 127. lþ. 85.1 fundur 563. mál: #A lögskráning sjómanna# (öryggisfræðsla) frv. 12/2002, JB
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[11:46]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þetta frv. til laga um breytingu á lögum um lögskráningu sjómanna kveður á um að styrkja enn frekar lagastoð fyrir því að sjómenn sæki tilskilin námskeið sem sérstaklega lúta að öryggisfræðslu vegna vinnu á sjó. Þetta er hið besta mál og Alþingi er að sjálfsögðu skylt að tryggja með lögum sem bestan grunn fyrir því að fræðsla og þekking um öryggismál sjómanna sé sem best og öruggust, þannig að hafi þótt vankantar á þeim lögum sem um það gilda nú, þá er alveg sjálfsagt að flýta fyrir því að þar verði bætt úr. Mér finnst þó mikilvægt að í meðferð málsins verði skoðað hvers vegna þetta hefur ekki gengið upp með þeim hætti sem vænst hafði verið. Í grg. með frv. er rakið að sjómenn og þeir sem hefðu átt að sækja þessi námskeið hafi ekki gert það eða skráð sig af námskeiðunum og þetta hafi ekki gengið eftir með þeim hætti sem við hafði verið búist.

Það hlýtur líka að þurfa að skoða hvers vegna það er. Það er ekki nóg að setja lög um að gera það skylt. Það verður líka að kanna hvers vegna þetta gekk ekki upp eins og vænst var, því að ég hef þá trú og þykist þess fullviss þar sem ég þekki til, að sjómenn vilja í sjálfu sér fyrstir manna standa sem best að þekkingu og færni í öryggismálum á sjó. Mér finnst þurfa að skoða og kanna framkvæmdina og hvað hefur brugðist í þeirri framkvæmd sem er hvatinn að því að hér er aukin lagaskylda til að sækja þessi námskeið. Er það vegna þess að Slysavarnaskóli sjómanna hefur ekki fjármagn, búnað eða aðstöðu til að reka þetta mál nægilega vel og með öruggum hætti? Er þetta vegna þess að of mikill kostnaður leggst á sjómenn í formi beins námskostnaðar og ferðakostnaðar og vinnutaps? Mér finnst afar mikilvægt að farið sé í gegnum alla þá þætti sem hafa áhrif á og tryggja að þetta geti gengið upp eins og til er vænst.

Ég legg áherslu á að sjálfsagt er að hraða þessu máli en það sé unnið í nánu samráði við sjómenn og þá hagsmunaaðila sem hér koma að, auk Slysavarnaskóla sjómanna og þegar gengið verði endanlega frá þessum lögum, þá sé það tryggt að þarna sé verið að skapa betri umgjörð.

Ég dreg enga dul á þá skoðun mína að í þessum atriðum gagnvart einum mikilvægasta atvinnuvegi landsmanna sem byggir á sjómennsku sé mjög mikilvægt að kostnaður og aðrir slíkir mikilvægir grunnþættir í framkvæmdinni sé sameiginlegur af þjóðinni allri og eigi ekki að verða til þess að hamla starfi og öryggisfræðslu, ekki síst á þessum sviðum. Ég veit ekki hvort svo sé í þessu tilviki en mikilvægt er að það sé tryggt. Það legg ég áherslu á, virðulegi forseti, jafnframt því sem ég á sæti í hv. samgn. og mun að sjálfsögðu stuðla að því að málið fái bæði öruggan og góðan framgang í gegnum nefndina eftir slíka efnislega meðferð.