Vísinda- og tækniráð

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 12:06:49 (5350)

2002-02-28 12:06:49# 127. lþ. 85.2 fundur 539. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 549. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# frv., 553. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun# frv., menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[12:06]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég flyt frv. til laga um opinberan stuðning við vísindarannsóknir og er það hluti af þeim frumvörpum sem við, þrír ráðherrar, flytjum í tilefni af nýskipan á vísinda- og tækniskipulagi á vegum ríkisstjórnarinnar.

Þetta mál hefur verið lengi á döfinni og það eru um tvö ár síðan ég hóf umræður um þetta á vettvangi Rannsóknarráðs Íslands innan vísindasamfélagsins og eftir því sem málið hefur verið meira rætt, þeim mun meiri stuðningur hefur orðið við þá skipan sem hér er lögð til. Hún á rætur í rannsóknum sem voru gerðar í upphafi síðasta áratugar. Eins og menn sjá á greinargerð frv. til laga um Vísinda- og tækniráð sem hæstv. forsrh. flytur, þá var það þegar árið 1992 sem fram komu ábendingar frá OECD þess efnis að skynsamlegt væri fyrir Íslendinga að sameina kraftana við stefnumótun með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í frv. til laga um Vísinda- og tækniráð. Það skref var ekki stigið með breytingum á lögum um Rannsóknaráð ríkisins og vísindaráðs árið 1994 en er stigið núna því að ljóst er að vilji Íslendingar njóta sín sem framsækin þjóð í þekkingarsamfélaginu og á alþjóðavettvangi, þá er nauðsynlegt hér eins og annars staðar að laga starfsumhverfi slíkra stofnana að breyttum aðstæðum.

Ég tel ákaflega mikilvægt að þessi frv. komi fram og að þau endurspegli þá þróun sem hefur orðið í íslenska þekkingarþjóðfélaginu og séu til marks um það að ríkisstjórnin leggur megináherslu á að þessir þættir setji svip sinn á þróun efnahags- og atvinnulífs þjóðarinnar.

Frv. sem ég flyt er um opinberan stuðning við vísindarannsóknir. Markmið frv. og laganna ef frv. verður samþykkt er að efla vísindarannsóknir og vísindamenntun á Íslandi með því að styrkja grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir og stuðla að samvinnu þeirra aðila sem starfa að vísindarannsóknum jafnframt því að tryggja áreiðanleik og gæði upplýsinga um vísindi og rannsóknir í landinu. Þegar litið er til nýmæla frv. þá er lagt til að nýr sjóður, Rannsóknasjóður, taki við hlutverki Vísindasjóðs og Tæknisjóðs samkvæmt lögum um Rannsóknarráð Íslands. Stjórn Rannsóknasjóðs tekur við hlutverki því sem úthlutunarnefndir höfðu áður og þá er lagt til að Tækjasjóður taki við hlutverki Bygginga- og tækjasjóðs samkvæmt sömu lögum. Einnig er lagt til að þjónustumiðstöð vísindarannsókna taki við meginhluta þeirrar starfsemi sem nú er unnin af skrifstofu Rannsóknarráðs Íslands samkvæmt þessum sömu lögum. Hins vegar er lagt til að Rannsóknarnámssjóður starfi áfram.

Rannsóknasjóður hinn nýi mun gegna lykilhlutverki varðandi styrkveitingar til vísindarannsókna, bæði grunnrannsókna og hagnýtra rannsókna. Sjóðurinn mun styrkja rannsóknir samkvæmt skýrum kröfum um vísindalegan framgang, birtingu og skil á vísindalegum niðurstöðum hvort sem tilgangur er hagnýtur eða ekki. Hin óþörfu mörk milli sjóðanna sem hindrað hafa samanburð umsókna vegna mismunandi uppruna þeirra munu hverfa. Áhersla verður lögð á að rannsóknir séu styrktar eftir gæðum sem metin verða samkvæmt faglegum kröfum á viðkomandi sviði. Með þessu er verið að tryggja að sambærileg viðmið gildi við mat á umsóknum um styrki hvort sem um er að ræða grunnrannsóknir eða hagnýtar rannsóknir.

Þá er gert ráð fyrir að Tækjasjóður taki við hlutverki Bygginga- og tækjasjóðs. Lagt er til að hlutverk Tækjasjóðs verði að veita rannsóknastofnunum styrki til kaupa á dýrum tækjum og búnaði vegna rannsókna. Það er nýlunda í þessu frv. að sömu aðilar sitji í stjórn Rannsóknasjóðs og stjórn Tækjasjóðs og úthluti styrkjum á þann hátt sem hér er lagt til. Með því að hafa sömu stjórn í báðum sjóðunum er leitast við að samþætta úthlutanir Tækjasjóðs við úthlutanir úr Rannsóknasjóði.

Í frv. er gert ráð fyrir að Rannsóknarnámssjóður styrki rannsóknatengt framhaldsnáms til meistara- og doktorsgráðu við íslenska skóla á háskólastigi sem bjóða framhaldsnám og stunda vísindalegar rannsóknir. Gert er ráð fyrir að einungis nemendur sem stunda framhaldsnám við íslenska háskóla geti fengið styrk úr sjóðnum. Þetta er nýlunda. Í núverandi reglum um Rannsóknarnámssjóð nr. 974/2000 er unnt fyrir nemanda að fá styrk úr sjóðnum þó hann stundi nám í erlendum háskóla svo framarlega sem rannsóknarverkefnin fjalli um íslenskt viðfangsefni. Framboð framhaldsnáms í háskólum hér á landi hefur aukist mjög frá því að Rannsóknarnámssjóðurinn var settur á fót árið 1995 og mun fleiri stunda framhaldsnám hérlendis en áður. Mikilvægt er að styrkir Rannsóknarnámssjóðs nýtist til að efla framhaldsnám á Íslandi. Þessi skilyrði hindra ekki að nemendur geti tekið hluta af námi sínu við erlenda háskóla, enda sé nemandinn skráður í háskóla hér á landi. Menn sjá það t.d. á grein í Morgunblaðinu í dag hve hlutur framhaldsnáms hefur stóraukist hér á landi á undanförnum missirum og þar hefur orðið gjörbreyting og frv. tekur mið af því. Að sjálfsögðu er um álitamál að ræða þegar hugað er að því hvernig staðið er að styrkveitingum að þessu leyti en ég tel að það markmið og sá rammi sem hér er skilgreindur sé í góðu samræmi við þá þróun sem hefur verið hér á landi. Hitt þarf að sjálfsögðu að hafa í huga og er markmið í sjálfu sér að auðvelda Íslendingum að stunda framhaldsnám við alþjóðlegar háskólastofnanir eins og tíðkast hefur lengi og skilað hefur góðri raun en við verðum að haga skipulaginu í samræmi við þróunina og taka þá mið af því umhverfi sem við viljum skapa í kringum íslenska háskóla því að þeir sem stunda framhaldsnám og rannsóknarnám í háskólum erlendis eiga yfirleitt greiðan aðgang að styrkjum þar með sama hætti og hér eru veittir styrkir til rannsókna og framhaldsnáms við íslenska háskóla. Hafa verður þetta umhverfi í huga. Við erum að skapa sambærilegt umhverfi í kringum háskólastigið á Íslandi og menn hafa skapað erlendis með framhalds- og rannsóknarstyrkjum við skóla erlendis sem Íslendingar geta að sjálfsögðu notið eins og aðrir sem stunda slíkt nám í slíkum menntastofnunum erlendis. Nauðsynlegt er að líta til þessa þegar menn velta þessu fyrir sér en að sjálfsögðu er um nýmæli að ræða sem sjálfsagt er að ræða. Hv. menntmn. mun vafalaust kynna sér mismunandi sjónarmið varðandi þetta en við töldum skynsamlegt að leggja frv. fram með þeirri áherslu sérstaklega til að undirstrika mikilvægi þess að standa vel að framhalds- og rannsóknarnámi við íslenska háskóla.

Samkvæmt frv. tekur þjónustumiðstöð vísindarannsókna að mestu leyti við hlutverki núverandi skrifstofu Rannsóknarráðs Íslands en tekur þó ekki þátt í stefnumótunarstarfi Vísinda- og tækniráðs á annan hátt en að veita ráðgjöf og upplýsingar sé eftir því óskað. Er það í samræmi við markmið endurskoðunar á lögum nr. 61/1994 sem byggist á því að skýrari mörk verði dregin á milli stefnumótunar á sviði rannsókna annars vegar og úthlutunar styrkja og þjónustu við rannsóknaraðila hins vegar. Munu menntmrn. og iðnrn. því annast umsýslu fyrir vísindanefnd og tækninefnd, svo sem að annast undirbúning og boðun funda og ritun fundargerða.

Ég vil að lokum, herra forseti, aðeins geta þess varðandi þann þátt því menn hafa talið, og því hefur verið slegið fram án þess að fyrir því séu nokkur rök, að í þeirri nýskipan sem verið er að taka upp hér sé verið að auka íhlutunarvald stjórnmálamanna inn á hinn faglega þátt við úthlutun á styrkjum og öðru slíku. Svo er alls ekki því að eins og menn sjá þegar þeir lesa 4. og 5. gr. frv. þá er ítarlega fjallað um það hvernig komið er að því að úthluta styrkjum og einnig eru þar ákvæði um fagráð sem eiga að koma að því að gera tillögur um úthlutun úr styrkjum. Það er því ekki verið að seilast af hálfu stjórnmálamanna eða annarra aðila inn á styrkveitingarnar sjálfar heldur er markmiðið með þeirri pólitísku stefnumótun sem gert er ráð fyrir að þessari mikilvægu starfsemi og sívaxandi starfsemi sé skapaður sá sess innan efnahags- og atvinnukerfis þjóðarinnar sem nauðsynlegur er til að slík starfsemi nái að vaxa og dafna enn frekar.

Með þessum orðum, herra forseti, legg ég frv. fram og óska eftir því að eftir umræðuna verði því vísað til hv. menntmn.