Vísinda- og tækniráð

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 12:16:23 (5351)

2002-02-28 12:16:23# 127. lþ. 85.2 fundur 539. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 549. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# frv., 553. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[12:16]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra lýsti hér nýstárlegu umhverfi rannsókna sem tengjast doktors- og meistaraprófsnámi. Ég ætla ekki á þessu stigi að lýsa því yfir að ég sé honum sammála um það. Það má deila um það fyrirkomulag. Ég áskil mér rétt til að vera það á síðari stigum málsins. En mig langar þá til þess að spyrja hann: Leiðir þá ekki af sjálfri röksemdafærslu hæstv. ráðherra að erlendir námsmenn við Háskóla Íslands muni vera jafnvígir til styrkveitinga og íslenskir námsmenn? Ég tel að það sé óhjákvæmilegt miðað við röksemdafærslu hæstv. ráðherra en vildi gjarnan heyra hann útfæra það nánar.

Í öðru lagi spyr ég hæstv. ráðherra: Hvernig hyggst hann beita sér fyrir því að ná því markmiði sem lýst er í 1. gr. frv. um að styrkja grunnrannsóknir? Ég er þeirrar skoðunar að það sé ákaflega farsælt fyrir framvindu þjóðarhags hjá sérhverri þjóð til langs tíma að styrkja grunnrannsóknir en þær verða jafnan í hættu á að verða út undan. Í þeim frv. sem liggja hérna fyrir er öll megináherslan lögð á svokallaðar hagnýtar rannsóknir. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig telur hann að verið sé að styrkja grunnrannsóknir sérstaklega í þessu frv. og frumvörpum?

Í þriðja lagi: Hyggst hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin beita sér fyrir því að þessari breytingu fylgi aukið fjármagn? Hvergi í þessum frv. sé ég merki um aukið fjármagn. Víða er þó bent á að mikill hagvöxtur þjóða eins og Íra og Finna helgist af auknum fjárfestingum í rannsóknum.

Í fjórða lagi: Í framhaldi af athyglisverðum yfirlýsingum hæstv. forsrh. áðan um uppstokkun á verkaskiptingu Stjórnarráðsins spyr ég hæstv. menntmrh.: Telur hann ekki þörf á því að kanna rækilega svipaða uppstokkun á rannsóknastofnunum innan lands?