Vísinda- og tækniráð

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002, kl. 12:27:50 (5357)

2002-02-28 12:27:50# 127. lþ. 85.2 fundur 539. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv., 549. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# frv., 553. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun# frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 127. lþ.

[12:27]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ekki skal standa á mér að taka þessi mál til umfjöllunar með opnum huga og það var ekki meining mín að ætla að loka fyrir eitt eða neitt með þessu andsvari. Mér þykir hins vegar gott að hafa heyrt það frá hæstv. ráðherra að hér sé ekki verið að njörva hlutina niður í fjögur til fimm fagráð heldur sé jafnvel möguleiki að sjá þau fyrir sér átta. Það er talan sem hæstv. ráðherra nefndi í andsvari sínu þannig að við skulum bara halda áfram að hafa hugann opinn og láta hina fersku vinda blása. Mér þykir samt mikilsvert að heyra að hér sé ekki verið að hugsa um örfá fagráð heldur mögulega allt upp í átta og jafnvel fleiri. En við skulum jafnframt gera okkur grein fyrir því að gífurlegur kostnaður er samfara því að stofna fagráð af þessu tagi og því fleiri sem þau verða því meiri kostnaður fellur til. Ég er alls ekki að segja að ekki eigi að auka verulega kostnað hins opinbera við þær breytingar sem hér verða. Ég vil bara segja að mér sýnist hæstv. ríkisstjórn hafa lokað augum sínum fyrir því, af því að við erum að tala um lokaða hluti og opna, að þessar tillögur hljóti að hafa í för með sér umtalsvert aukinn kostnað frá því sem verið hefur.